140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[20:40]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, fjárlaganefndinni ber að halda utan um útgjöld og styðjast í þeim efnum við vandaða tekjuáætlun. Verkaskiptingin hefur einfaldlega verið með þeim hætti að fjárlaganefnd fylgist með tekjuhlutanum og reynir að greina breytingar þar á milli mánaða innan árs, eða ára þess vegna, og jafnhliða gjaldahlutanum. Þegar við rekumst á eitthvað sem snertir tekjuhlutann leitum við að sjálfsögðu til þeirrar nefndar sem er með sérhæfinguna á því sviði. Að þessu leytinu spila þessar tvær nefndir saman að því sem lýtur að tekjuhlutanum. Það má kannski segja að þetta skipulag geri ráð fyrir því að tekjuhlutanum sé betur sinnt en gjaldahlutanum ef við metum þetta í vægi nefndarstarfsins þegar tvær nefndir sýsla með sama hlutinn. En í gjaldahlutanum er vissulega ærið verk að vinna. Það er bara viðvarandi vandamál að halda utan um það. Það verður að segjast alveg eins og er að sá hluti fjárlaganna hefur illa verið virtur (Forseti hringir.) af núverandi stjórnvöldum.