140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Einhverra hluta vegna hefur verið lítið rætt um þinglok og forsetakosningar. Ég hef fylgst með stjórnmálum nokkuð lengi og verið á þingi nokkur þing, og almenna reglan hefur verið sú að sjálfsagt og eðlilegt hefur þótt að þingið gefi kosningum, eins og sveitarstjórnarkosningum og forsetakosningum, ráðrúm þannig að það taki ekki athyglina frá þeim. Þá hafa menn miðað við að ljúka þingi fljótlega í aðdraganda kosninga eða nokkrum vikum á undan og sérstaklega hafa menn verið harðir á því að fara ekki nær en sem nemur því að fjórar vikur séu til viðkomandi kosninga. Ég veit ekki hvers forsetakosningarnar núna eiga að gjalda en ég vek athygli á því að allt sem við gerum hér skapar fordæmi. Það á ekki bara við um forsetakosningar; ef okkur finnst sjálfsagt að þing standi alveg fram að forsetakosningum gildir það líka um aðrar kosningar líka og ég er ekki viss um að það sé gott.

Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar sem sagði að við ættum að virða kjarnann í hinum lýðræðislegu leikreglum. Ég bara spyr, svona fyrir forvitni sakir: Þvælast lög ekkert fyrir hv. þingmönnum? Ég vil benda mönnum á 10. gr. laga um þingsköp Alþingis þar sem segir að sumarhlé þingsins sé frá 1. júlí til 10. ágúst og skuli ekki boða til nefndafunda á þeim tíma nema brýn nauðsyn krefji. Það er talað um nefndafundi, en þing er ekki nefnt. Það er svolítið sérstakt, ef við gerum þá kröfu sem við hljótum að gera að allir landsmenn fari að lögum, að lög sem eru sérstaklega um þingið og hvernig við störfum séu fullkomið aukaatriði. Það má hafa allar skoðanir á þeim en að mönnum finnist þau vera fullkomið aukaatriði (Forseti hringir.) finnst mér ekki góð skilaboð út í samfélagið, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.