140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið fyllilega undir með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að það er full ástæða til að fara heildstætt yfir þetta mál. Við þurfum ákveðinn tíma til þess og við þurfum að horfa til þeirra aðstæðna sem eru uppi. En það bætir ekki stöðuna að fresta þeim aðgerðum sem kallað er ákveðið eftir núna. Það er alveg ljóst að ef við svörum ekki því kalli og afgreiðum málið með þeim breytingum sem nú liggja fyrir og Eftirlitsstofnun EFTA hefur gefið fyllilega til kynna að hún getur sætt sig við munum við fá mjög alvarlegar athugasemdir strax á næstu vikum. Þess vegna er brýnt að ljúka þessu máli núna en engu að síður fylgja málinu eftir með frekari úttekt innan þess tímaramma sem við höfum til að ljúka yfirferð á þeim athugasemdum sem hafa komið fram í heild sinni. En það verður ekki gert nema menn geri það í fullu samræmi við þær aðstæður sem eru á markaði og þær aðstæður eru í óvissu sem stendur. Við væntum þess öll að það muni greiðast úr þeim málum og við sjáum betri heildarstöðu, ekki bara gagnvart höfuðborgarsvæðinu heldur auðvitað landinu öllu vegna þess að Íbúðalánasjóður á að sinna öllu landinu og íbúum hvar svo sem þeir búa.