140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:42]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að Íbúðalánasjóður eigi að vera til en hann eigi að vera til undir ákveðnum formerkjum, betur get ég ekki svarað hv. þingmanni. Það er ákveðið félagslegt hlutverk sem Íbúðalánasjóður hefur til að veita til dæmis sveitarfélögum og félagasamtökum lán til byggingar leiguíbúða sem tekjulágir einstaklingar eða einstaklingar sem annarra hluta vegna eru ekki færir um að vera á hinum almenna íbúðamarkaði geta leitað til. Já, þar á Íbúðalánasjóður að vera til.

En Íbúðalánasjóður á líka að keppa á hinum frjálsa markaði. Það er bara þannig og það á ekki að vernda hann, en það þarf að setja um hann lög og reglur. Hann á til dæmis ekki að geta farið þannig með peninga sína, ef við getum orðað það svo, að eiginfjárhlutfall sjóðsins fari langt niður fyrir það sem boðlegt er og skráð er í lögum, að peningar séu veittir inn í Íbúðalánasjóð eins og núna úr ríkissjóði. Það fer ekki til að efla eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs. Það er geymt á afskriftareikningi og það getur ekki hafa verið hugmynd þingmanna þegar verið var að heimila fjármuni inn í Íbúðalánasjóð. Það er því margt í umgjörð Íbúðalánasjóðs, lögum, reglum, venjum og hefðum sem þar hefur tíðkast sem þarf að fara í gegnum ef sjóðurinn á að standa undir nafni.