140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:44]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu og yfirferð yfir málið. Ég hjó eftir því að grunnurinn að þessu frumvarpi er viðbrögð við athugasemdum sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur sent íslenskum stjórnvöldum upp úr rannsókn sem hefur verið alllengi í vinnslu. Hv. þingmaður sagði að hún teldi að menn hefðu ekki vandað nægilega til vinnunnar og hún talið eðlilegt að ganga lengra í þeirri tillögugerð sem hér liggur fyrir. Ég vil inna hv. þingmann aðeins eftir því í hvaða veru hún sæi þá viðbrögð þingsins við þessum athugasemdum.

Einnig vekur athygli sú umræða sem hér hefur átt sér stað og er meðal annars að finna í fylgiskjali frá fjárlagaskrifstofunni með þessu frumvarpi um leigufélögin. Athugasemd fjárlagaskrifstofunnar er í þá veru að ekki kunni að vera heppilegt fyrirkomulag að sjóðurinn stofni og reki leigufélög í samkeppni við sambærileg félög sem hann hefur lánað til.

Spurning mín til hv. þingmanns er einfaldlega sú hvort hún telji að þessi tillaga um meðferð leiguíbúðanna samræmist og falli að þeim athugasemdum sem Eftirlitsstofnunin hefur gert, hvort sú tillaga sem liggur fyrir í frumvarpinu samræmist í rauninni því regluverki sem hér er undir.