140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, mig langar að taka undir það sem hv. þingmaður sagði í svari sínu. Það er svolítið einkennilegt að hér sé verið að ræða um þinglok og ekki liggja fyrir nein mál á forgangslista ríkisstjórnarinnar sem varða skuldavanda heimilanna. Mér finnst það því mjög athyglisverð nálgun hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni hvort ekki eigi að skoða þá útfærslu sem hv. þingmaður hefur lagt til í öðru frumvarpi.

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spurði hvort við sjálfstæðismenn teldum ekki að Íbúðalánasjóður ætti að lána þar sem von væri á því að lán yrði endurgreitt að fullu og engin vandræði væru á markaði, eitthvað á þennan hátt. Ég vil varpa þeirri spurningu til hv. þingmanns: Hvernig sér hann fyrir sér hlutverk Íbúðalánasjóðs? Á það ekki að vera félagslegur sjóður sem aðstoðar þá við íbúðarkaup sem af einhverjum ástæðum geta ekki notfært sér þær leiðir sem bankarnir bjóða upp á? Á hann ekki að veita lán af félagslegum ástæðum og þá undir yfirstjórn velferðarráðherra? Eða sér hv. þingmaður fyrir sér að Íbúðalánasjóður sé á þessum lánamarkaði eins og hver önnur fjármálastofnun og láni öllum, sama hverjum er, til íbúðarkaupa? Þá ætti hann að mínu viti að vera undir efnahags- og viðskiptaráðuneytinu eins og allar slíkar stofnanir. Hvernig sér hv. þingmaður þetta fyrir sér?

Telur hv. þingmaður að á engan hátt þurfi að fara yfir umhverfi og ramma sjóðsins í ljósi þess efnahagshruns sem hér varð og þess hlutverks sem Íbúðalánasjóður, með sinni miklu fyrirferð á fasteignalánamarkaði, hafði í því samspili öllu eins og (Forseti hringir.) bent er á í rannsóknarskýrslu Alþingis?