140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Flestar þær erlendu eftirlitsstofnanir sem hafa fylgst með efnahagsmálum á Íslandi hafa ítrekað varað við þátttöku ríkisins í almennum íbúðalánum. Hv. þingmaður er hér að segja að hann telji að Íbúðalánasjóður eigi að vera í samkeppni við einkaaðila um íbúðarlán alls staðar á landinu og undir öllum kringumstæðum. Ég skildi það (Gripið fram í.) — já, allt í lagi. En ég er sammála hv. þingmanni um það að auðvitað eru ýmis svæði á landinu þar sem íbúðamarkaðurinn er ekki með sama hætti og hér á höfuðborgarsvæðinu. Þannig hefur það verið í mörg ár, líka fyrir hrun. Við getum alveg talað um Íbúðalánasjóð í því samhengi að hann sinni þeim svæðum þar sem markaðsbrestur er fyrir hendi og sé þessi félagslegi íbúðalánasjóður sem þarf að vera til staðar. En ég tel að sé ekki rétt að horfa fram hjá þeim miklu athugasemdum sem okkur hafa borist og skauta á léttvægan hátt yfir það eins og mér finnst verið að (Forseti hringir.) gera í þessu frumvarpi. Við verðum að læra af reynslunni og hlusta á þær (Forseti hringir.) athugasemdir sem okkur berast.