140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Okkur er ljóst að þetta frumvarp sem hér er verið að ræða um er flutt vegna þess að gerðar voru athugasemdir við það form sem er á rekstri Íbúðalánasjóðs. Vitaskuld gerum við okkur grein fyrir því að það kallar á einhver viðbrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þar eru uppi alls konar álitamál um samkeppnisstöðu, sjóð sem hefur ríkisábyrgðir og jafnvel möguleika á einhvers konar niðurgreiðslu á vöxtum o.s.frv. sem ESA, Eftirlitsstofnun EFTA hefur rekið hornin í. Þess vegna hefði maður talið að þegar verið er að gera svona viðurhlutamiklar breytingar á sjóðnum hefði í leiðinni átt að taka á þeim málum sem við höfum rætt hér nánast án hlés í þrjú ár sem eru þau mál sem snúa beint að heimilunum í landinu. Íbúðalánasjóður er mjög stór gerandi, hann er langsamlega stærsti lánardrottinn íslenskra íbúðarkaupenda. Þótt bankarnir hafi komið inn á þann markað á síðustu árum, þegar stóru bankarnir voru við lýði, og hafa verið að gera það líka núna, breytir það ekki þeirri stöðu að Íbúðalánasjóður er með yfirgnæfandi hluta þeirra lána sem íbúðareigendur hafa tekið.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að það hefði verið eðlilegt nú þegar verið er að gera þessar breytingar á sjóðnum, að nota um leið tækifærið til þess að leggja sjóðnum til möguleika á nýjum úrræðum gagnvart skuldugum heimilum. Það er verið að breyta lagaumhverfi sjóðsins og marka honum ákveðinn sess. En hefði ekki verið eðlilegt í leiðinni að reyna að búa til einhverja almenna leikreglur fyrir sjóðinn til þess að takast á við vanda skuldugra íslenskra heimila?