140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[12:12]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Það kom margt fram í máli hans sem rétt er að tæpa á. Það er alveg rétt að það fór fram mjög mikil umræða um þetta í nefndinni, bæði sem sagt í menntamálanefnd í fyrravetur og svo allsherjar- og menntamálanefnd núna þegar málið var unnið áfram og aftur. Ég held að það hafi verið til bóta að málið kom aftur inn og fékk í rauninni aðra umferð í gegnum nefndina. Það er rétt sem kom fram, það var mikill ágreiningur um málið og tilurð þess í röðum fornleifafræðinga og þeirrar stéttar en ekki innan nefndarinnar. Það var unnið þverpólitískt og við náðum fínni samstöðu um niðurstöðuna eftir óhemjumikla vinnu í vetur. Eftir að málið fór út úr nefndinni og til 2. umr. komu fram aftur og enn frekari ábendingar um nokkur atriði sem voru að sjálfsögðu mörg málefnaleg og stéttin stóð saman að.

Við kölluðum málið inn eins og kom fram í máli framsögumanns, sem hefur haldið sérstaklega vel á þessu máli, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttur, í morgun á milli umræðna. Þar gerum við tillögu að þó nokkrum breytingum sem mæta mjög viðhorfum og ábendingum fornleifafræðinganna sjálfra. Ég held sjálfur að þær breytingar geri það að verkum að hægt sé að staðhæfa að mesti ágreiningurinn um frumvarpið eins og það kom frá ráðuneytinu, það var mikill ágreiningur þá á milli ráðuneytisins og margra innan stéttarinnar, hafi að mestu leyti verið settur niður. Að sjálfsögðu vildu einstakir fræðimenn innan stéttarinnar ganga öðruvísi, lengra eða skemur, en við mætum mörgum þeirra helstu ábendingum eins og með aldursregluna, 1900 eða 100 ára, og fleira eins og var rakið hérna í morgun.

Eins tek ég undir að ég held að tillaga frá hv. þm. Merði Árnasyni sé réttmæt og að við þurfum að skoða hvort ástæða sé til að bæta henni við.

Ég spyr nú hv. þingmann hvort hann telji ekki eins og við hv. framsögumaður (Forseti hringir.) að eftir þær breytingar sem við leggjum til á milli umræðna sé mun meiri sátt um málið og að enginn þurfi að telja að sér vegið.