140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[11:00]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að ég hafi gagnrýnt inntak frumvarpsins, sem við erum að fara að samþykkja hér og er lagt fram af hv. efnahags- og viðskiptanefnd, hef ég samt sem áður efasemdir um þá þróun sem birtist í því. Reyndar lít ég svo á að ég sé að bjarga máli sem búið er að klúðra. Það var ákveðið að fara þessa dómstólaleið sem ég varaði við og sagði að mundi verða mjög dýrkeypt og langsótt og það hefur reyndar komið í ljós. Það eru að verða komin fjögur ár frá hruni og við erum enn í dómstólum með stóran hluta heimilanna því að það er ekki búið að leysa ágreininginn varðandi gengislánin.

Ég harma það að þessi leið hafi verið farin. Þegar ráðamenn þjóðarinnar vissu að gengislánin væru ólögleg viðurkenndu þeir ekki þá staðreynd og settust niður við samningaborðið og sömdu ekki um hvernig ætti að leysa úr því vandamáli heldur vísuðu einstökum heimilum landsins til dómstóla. Þar erum við núna og það hefur þýtt að við á þingi erum stöðugt að laga einhver lagaákvæði til að skýra þau þannig að auðveldara verði fyrir neytendur meðal annars að sækja rétt sinn, en ekki bara neytendur heldur líka fjármálafyrirtæki. Ég tel að allar þessar lagabreytingar hefðu verið óþarfar ef við hefðum farið norrænu samningsleiðina í staðinn fyrir amerísku dómstólaleiðina.