140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[11:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir gerði grein fyrir því að nefndin átti fund um málin meðan á 2. umr. um það stóð. Sú afstaða sem hún lýsir til breytingartillagnanna er afstaða meiri hlutans. Við í minni hlutanum áskiljum okkur rétt til þess að greiða atkvæði með eða á móti einstökum breytingartillögum eftir atvikum. Ég hygg að samstaða sé um allmargar af þeim breytingartillögum sem þarna liggja fyrir, meðal annars breytingartillögur meiri hlutans sem fram komu milli 1. og 2. umr. Sá böggull fylgir þó skammrifi að fjármögnun þessara verkefna er eyrnamerkt veiðileyfagjaldinu sem eftir er að klára hér á þingi og sem raunar er búið að eyða töluvert oft miðað við yfirlýsingar einstakra stjórnarliða og einstakra ráðherra. En ekki leggjumst við gegn framkvæmdunum sem þar er um að ræða. Ég hygg því að sjálfstæðismenn muni almennt greiða atkvæði (Forseti hringir.) með samgönguáætluninni í heild en taka afstöðu til einstakra breytingartillagna eins og þær koma fyrir.