141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í Fréttatímanum í morgun var viðtal við ungan föður. Sonur hans er með alvarlegan hrörnunarsjúkdóm og hinn ungi faðir sinnir syni sínum heima hjá sér. Það sem sló mig sérstaklega í því viðtali var þegar hann talaði um Barnaspítala Hringsins sem við höfum verið svo stolt af. Hann talaði um það að hann treysti ekki lengur Barnaspítalanum. Ekki vegna þess að þar væri ekki gott starfsfólk sem væri að reyna að gera sitt besta heldur að það væri orðið svo fáliðað. Það væri hlaupandi um frá því að vaktin byrjaði og þar til það stimplaði sig út.

Þetta er eitthvað sem ég held að sé mjög mikilvægt fyrir hæstv. ráðherra að hafa í huga og þá sem hafa stutt hann þegar talað er um hversu vel hefur til tekist við niðurskurð í velferðarkerfinu. Í þessu fjárlagafrumvarpi er ekki gert ráð fyrir frekari niðurskurði. Það sem ég vil hins vegar benda á er að við þurfum náttúrlega að snúa við þeim niðurskurði sem við höfum staðið í á undanförnum árum og það á að vera mögulegt.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir spurði hæstv. ráðherra áðan hvað ráðherrann væri að gera til að auka enn frekar hagkvæmnina í kerfinu, hvort verið væri að gera ákveðnar skipulagsbreytingar á kerfinu sem gætu gert það að verkum að við gætum nýtt peningana betur sem við setjum nú þegar í kerfið og stutt betur við heilsugæsluna og heilbrigðisstofnanirnar. Hún spurði hæstv. ráðherra um það sem hún kallaði sveigjanlegt tilvísunarkerfi, en við framsóknarmenn höfum talað um valfrjálst tilvísunarkerfi, og hvað hæstv. ráðherra væri að gera til að tryggja það að við værum ekki að beina veikum Íslendingum í dýrustu tegund af þjónustu, annars vegar hjá bráðamóttökunni hjá Landspítalanum eða til sérfræðilækna.

Ég vil ítreka þá spurningu. Ég vil fá að heyra skýr svör frá hæstv. ráðherra um það hvernig hann hyggst bæta heilsugæsluna, hvenær hann hyggst innleiða valfrjálst eða sveigjanlegt tilvísanakerfi og hvað hann er að gera til þess að við getum byrjað að snúa við þeim niðurskurði sem við höfum þurft að fara í á síðustu árum.