141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmanni varðandi umferðaröryggið og mikilvægi þess að efla það. Það verður síðan gert með margvíslegu móti eins og við öll þekkjum. Það gildir meðal annars um umferðarmannvirkin, að þau séu þannig úr garði gerð að þau séu sem öruggust.

Ég vil hins vegar mótmæla því þegar sagt er að við séum ekki að ráðast í framkvæmdir á sviði samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu. Það er nefnilega hægt að gera það með margvíslegu móti. Við erum að ráðast núna í mesta átak í samgöngumálum fyrir almenningsumferð en nokkurn tíma hefur verið gert. Við erum að setja á hverju ári 1 milljarð til uppbyggingar almenningsþjónustunni. Við erum að greiða götu gangandi umferðar, hjólandi umferðar og almenningsvagna. Ég held að þetta byggi á mikilli framsýni (Gripið fram í: Nei.) vegna þess að Íslendingar verða að fara að gera sér grein fyrir því, og fólk hér á þéttbýlissvæðinu, að við erum að verða að stórborg og við verðum að fara að taka upp samgöngumátann sem er við lýði í stórborgum. Þá dugar ekki að breikka og fjölga akreinum og gera sig að eins konar Houston í Texas. Við erum Reykjavík. Við ætlum að hafa annan hátt á. Við erum að brjóta blað hvað þetta snertir.

Ég er sannfærður um að þessi efling almannaþjónustunnar, almannasamgangna, á eftir að auka öryggi í umferðinni líka. Ég er alveg sannfærður um að svo er. Ég tel því að við séum að stíga skref til mikilla framfara.