141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

skýrsla Seðlabankans um gjaldmiðilsmál.

[13:46]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil bæta því við um þessa skýrslu að ég tel að hún sé líka gagnleg vegna þess að hún fjallar um og afgreiðir út af borðinu, að mínu mati, ýmsar hugmyndir um patentlausnir í þessum málum eins og fyrirvaralitla einhliða upptöku annarra mynta. (Gripið fram í: Norsku krónunnar?) Já, já, ég get alveg viðurkennt eignarhald mitt á ýmsum hugmyndum í þeim efnum, en það er alveg ljóst, ef maður markar rökstuðning þeirra fagaðila og sérfræðinga sem fjalla um málin, að allar slíkar hugmyndir eru miklum vandkvæðum bundnar.

Hvað á ég við með því að meginboðskapur skýrslunnar sé að koma húsinu í lag? Jú, það er að halda áfram því starfi að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum, það er að vinda ofan af gjaldeyrishöftunum, það er að styrkja löggjöfina um fjármálamarkaðinn í heild og tryggja fjármálastöðugleika með skilvirku skipulagi, það er að samþætta peningamála- og ríkisfjármálastefnuna og það er fyrst og fremst að sýna ábyrgð og aga. Þá leysast mjög mörg mál sem við höfum kannski ranglega kennt krónunni um (Forseti hringir.) að vera völd að sem sökudólgur. Stefnan býður upp á það og lokar engum möguleikum til framtíðar. Þetta er undirbúningurinn, (Forseti hringir.) þetta er það sem er nauðsynlegt að gera óháð því hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég tel að við getum verið ánægð með leiðsögnina sem þessi skýrsla býður upp á (Forseti hringir.) til næstu missira. Við vitum núna hver eru næstu verk í þessum efnum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann. Hann er ein mínúta í síðari umferð.)