141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

orð ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma o.fl.

[14:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú erum við að hefja þingstörf og það hlýtur að vera hæstv. forseta mikið áhyggjuefni hvernig hlutirnir fara af stað í þinginu.

Virðulegur forseti hefur haft orð á því að hér þyrfti að breyta vinnubrögðum, ná þyrfti meiri sátt í störfin á þinginu. Það er skemmst að minnast þess hvernig forustumenn ríkisstjórnarinnar töluðu hér í og eftir stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra á dögunum. Þar var hvatt til þess að farið yrði að vinna í meiri sátt, að umræður yrðu málefnalegar og þingið ynni af meiri skynsemi en verið hefur síðasta veturinn, talað um að þetta gengi ekki svona áfram. Svo sjáum við, virðulegi forseti, hvernig þetta fer af stað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Hér var með aðkomu virðulegs forseta gert samkomulag við þinglok í vor um það hvernig menn skyldu haga störfum áfram. Það fyrsta sem forustumenn ríkisstjórnarinnar gera er að brjóta það samkomulag sem var gert (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) og það hlýtur að vera áhyggjuefni að ríkisstjórnin kjósi að fara af stað inn í þennan vetur með þessum þekktu vinnubrögðum sem hafa kallað á þann óróleika í þinginu (Forseti hringir.) sem okkur er öllum kunnur. Ég hvet virðulegan forseta til að taka forustumenn ríkisstjórnarinnar á teppið og kenna þeim almennileg vinnubrögð í þessum efnum.