141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

raforkumál á Norðurlandi.

[14:22]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hreyfa þessu máli, það er eðlilegt að það sé rætt. Það má kannski segja að meginafleiðingar óveðursins séu þríþættar hvað tjón og áhrif þess snertir. Það er í fyrsta lagi hið mikla línutjón, í öðru lagi framleiðslutap og óþægindi vegna rafmagnsleysis eða rafmagnsskömmtunar og svo eru það í þriðja lagi stórfelldir búfjárskaðar og annars konar tjónóþægindi hjá bændum.

Ef við víkjum fyrst að flutningskerfinu er ljóst að umtalsverðar skemmdir urðu á dreifikerfi Landsnets. Að minnsta kosti fjórar línur skemmdust og er áætlað að viðgerðarkostnaður geti numið um 80–100 millj. kr. auk þess sem áætlað er að keyrsla varaaflsstöðva kosti um 16 millj. kr. Í fyrsta lagi brotnuðu 27 möstur í Kópaskerslínu 1 frá Laxárvirkjun að Kópaskeri, fyrst og fremst á Reykjaheiði. Í öðru lagi urðu verulegar skemmdir á Kröflulínu 1 frá Kröflu til Akureyrar. Þar brotnuðu 12 möstur við Hrísa í Reykjadal og þar með rofnaði byggðalínuhringurinn. Þar af leiðandi hafði það ástand áhrif á öryggi orkuflutnings á mjög stóru svæði, á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Vírar í Laxárlínu 1 frá Laxá að Akureyri slitnuðu á tveim stöðum í Flókadal og loks leysti Blöndulína 2 út vegna ísingar rétt við tengivirki Landsnets í Varmahlíð en ekki urðu þó varanlegar skemmdir á línunni.

Það er stefnumótun Landsnets að styrkja orkuflutningskerfið með því að reisa nýja flutningslínu frá Blönduvirkjun um Akureyri og allt austur að Fljótsdalsstöð á næstu árum. Þessar línur tilheyra meginflutningskerfi landsins og gegna mjög viðamiklu öryggishlutverki fyrir alla landsmenn eins og sést af áhrifunum þegar þær bila og veðrið leiddi í ljós. Að vísu hefur verið fyrirstaða og er óútkljáð mál varðandi skipulags- og leyfisveitingaferlið sem hefur tafið nokkuð fyrir því að framkvæmdir hæfust að þessu leyti.

Kópaskerslína 1 er hluti af mjög stóru flutningskerfi. Sú lína gegnir því hlutverki að færa rafmagn til Kópaskers, Raufarhafnar, Þórshafnar og allt austur á Bakkafjörð ásamt nærsveitum og þar sem einungis ein flutningslína er inn á þetta svæði rofnar orkuflutningurinn algerlega þegar hún er úti. Sams konar aðstæður eru því miður víðar í landinu, til dæmis í Skagafirði og þarf að huga að leiðum til að bæta úr ástandinu, til dæmis með hringtengingu eða uppsetningu varaaflsvirkjana innan dreifikerfanna o.s.frv. Af hálfu Landsnets er unnið af krafti að því að fara yfir möguleika fyrirtækisins eins og þeir frekast eru hverju sinni til að bæta úr vandanum.

Varðandi Rarik varð stórfellt tjón í Mývatnssveit. Þar brotnuðu um 100 staurar. Verulegt tjón varð norðan við landið. Áætlað er að beint tjón Rariks nemi um 150 millj. kr. fyrir utan keyrslu á varavélum. Rarik er ekki tryggt fyrir svona tjóni frekar en Landsnet. Hafa verður í huga að háspennukerfi Rariks í dreifbýli er í heild um 8.000 kílómetrar á lengd. Unnið hefur verið markvisst að lagningu jarðstrengja allt frá árinu 1991 þegar mikið tjón varð á línum á Norðurlandi, en þá brotnuðu reyndar 550 staurar. Sömuleiðis brotnuðu á fjórða hundrað staura á árinu 1995. Það skiptir sköpum við þessar aðstæður að búið sé að koma nær helmingi loftlína í jörð því að tjónið hefði auðvitað orðið stórfellt og miklu meira ef svo hefði ekki verið. Að þessu öllu saman þarf að vinna og það er sérstakt fagnaðarefni að Rarik hefur þegar ákveðið að leggja um 58 kílómetra af jarðstrengjum í Mývatnssveit á þessu ári og hinu næsta og áætlar að ljúka því verki að mestu leyti á 20 árum eða svo.

Varðandi búfjártjónið er ljóst að stórfelldur skaði varð á Norðurlandi öllu allt frá Húnaþingi og austur um Þingeyjarsýslur þar sem hann varð mestur. Það er ómögulegt að meta á þessari stundu hve margt fé hefur farist og óttast ráðunautar að tjón sumra bænda sé stórfellt. Auk búfjárskaða verður auðvitað að hafa í huga að bændur urðu fyrir margvíslegu öðru tjóni og óþægindum og raunum af völdum veðursins. Ráðuneytið hefur átt fundi með Bændasamtökum Íslands og Bjargráðasjóði og er ljóst að koma mun til kasta sjóðsins. Fyrir liggur að eftirstöðvar frá eldgosunum í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum eru til staðar í A-deild sjóðsins upp á 25–30 millj. kr. og verður þeim að sjálfsögðu ráðstafað til að mæta þessu tjóni og meiru ef til þarf. Ríkisstjórnin hefur samþykkt fyrir sitt leyti að nýta þessar eftirstöðvar til að bæta tjón vegna óveðursins og þá samkvæmt reglum sem sjóðurinn mun setja þar um og staðfestar verða af ráðherra. Vonandi duga þær heimildir en að sjálfsögðu verður bætt við þar ef meira þarf til.

Samstarfshópur ráðuneytisstjóra hefur verið virkjaður í samræmi við reynslu okkar af náttúruhamförunum að undanförnu. Ég sé ástæðu til að færa öllum þakkir sem komið hafa að málinu, björgunarsveitum, sjálfboðaliðum Almannavarna, yfirvöldum og öðrum slíkum. Ég læt þess getið í lokin að á morgun verða þrír íbúafundir í umdæmi sýslumannsins á Húsavík (Forseti hringir.) þar sem farið verður yfir málið með málsaðilum og heimamönnum.