141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[15:13]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Það verður að segjast eins og er að það er mjög ánægjulegt að til sé fjölmenningarsetur á Íslandi. Ég verð að viðurkenna að ég var ein af þeim sem hafði töluverðar áhyggjur af því að þetta yrði alfarið fært úr Reykjavík á svipuðum tíma og Alþjóðahús var lagt niður. Ég þekki töluvert marga innflytjendur og ég hef töluverðar áhyggjur af því. Fjölmenningarhús í Reykjavík eða Alþjóðahúsið var ákveðin kjölfesta fyrir marga. Eftir að það hvarf hafa margir ekkert vitað hvert þeir ættu að leita til að fá aðstoð eða svör við spurningum sínum. Það verður að viðurkennast að enn vantar töluvert mikið upp á að tenging sé á milli þeirra sem flytja hingað og okkar. Það væri gaman að heyra hvort hv. þingmaður hefur heyrt eitthvað um þessa gagnrýni.

Ég veit að þetta hefur gengið mjög vel þarna á Vestfjörðum, á Ísafirði, en hefur hann eitthvað velt fyrir sér afleiðingunum af því að flytja þennan mikilvæga hlekk og tengingu alfarið úr borginni? Síðan kom reyndar önnur stofnun eða annað hús en það eru bara allt of margir sem vita ekkert að það sé til. Það væri gaman að heyra hvort hann hefði heyrt eitthvað um þessa gagnrýni og hver heildarávinningurinn hefur verið af því að flytja þetta á Vestfirðina.