141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Frétt um 18 milljarða útstreymi af snjóhengjunni hefur vakið upp ótta meðal margra um að verið sé að koma einkaskuld yfir á skattgreiðendur. Um er að ræða fjármagn erlends aðila sem tilheyrir hinni svokölluðu snjóhengju en hún samanstendur af aflandskrónum og kröfum í gömlu bankana og aðrar fallnar fjármálastofnanir. Búið er að einangra þær eignir sem standa að baki snjóhengjunni og þær eru allar á sérstökum reikningum í bankakerfinu og það er vert að velta fyrir sér hvers vegna búið er að einangra snjóhengjuna sérstaklega í fjármálakerfinu. Jú, það er vegna þess að ekki er til gjaldeyrir í landinu til að hleypa þessum eignum út. Afgangur af viðskiptajöfnuði dugar bara fyrir innflutningi, vaxtagreiðslum og afborgunum af lánum. Það er því orðið mjög tímabært að fá að heyra lausn ríkisstjórnarflokkanna á því vandamáli sem við köllum snjóhengjuna. Nýleg skýrsla Seðlabankans um valkosti í gjaldmiðilsmálum nefnir ekki á nafn þetta vandamál, þessa snjóhengju sem bíður eftir að streyma hér út um leið og gjaldeyrishöftin verða afnumin, jafnvel þó að ekki sé hægt að taka upp nýjan gjaldmiðil eða evruna nema leysa þetta vandamál. Það er ekki hægt að búa við það lengur, frú forseti, að verið sé að „víla og díla“ um hvernig snjóhengjuvandinn sé leystur í einhverjum nefndum þar sem eiga sæti fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ESB en ekki fulltrúar kjörinna fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég krefst þess að ríkisstjórnarflokkarnir komi með sína lausn á snjóhengjunni í stað þess að við séum í hvert skipti sem hér fer út úr hagkerfinu eitthvert fjármagn (Forseti hringir.) að láta okkur detta í hug að verið sé að finna lausn á snjóhengjunni (Forseti hringir.) með því að koma henni yfir á skattgreiðendur.