141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka tveimur hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir að hafa reynt að svara mér af hverju þeir útiloka annan kostinn af þeim tveimur sem eftir eru í gjaldmiðilsmálum Íslendinga. Þeir voru að vísu ekki algjörlega sammála. Annar vildi fresta aðildarumsóknarviðræðunum og taka þær upp eftir nokkur ár þegar ljóst væri hvernig staðan yrði í Evrópu á þeim tíma, en hinn vildi draga umsóknina til baka og fara hiklaust yfir í haftakrónuna.

Það sem eftir stendur eftir þessar umræður er ósköp einfaldlega það að Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn augljóslega líka því að hann svaraði ekki og einhverjir aðrir, hv. þm. Lilja Mósesdóttir að öllum líkindum, vilja útiloka annan kostinn af þessum tveimur. Það stendur því upp á þá að skýra fyrir okkur hvernig á að halda þessari krónu áfram. Hvernig á haftakrónan að breytast í nothæfan gjaldmiðil? Á að leyfa frjálsa fjármagnsflutninga? Á að vera flotgengi? Ætlum við að segja okkur úr EES? Eða hvernig á þetta að vera?

Ég verð, forseti, að minnast á þá fjóra þingmenn sem töluðu um forsíðu Morgunblaðsins og fóru mikinn. Nú veit ég lítið um það mál annað en það að Seðlabankinn hefur þegar gert athugasemd á heimasíðu sinni sem er þannig að fréttin á forsíðu Morgunblaðsins um undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál sé í flestum atriðum röng, Seðlabankinn hafi ekki notað gjaldeyrisforða sinn í þessu skyni. Þeir sem þekkja til gjaldeyrismarkaðar — nú ættu þessir fjórir að hlusta — vita að hefði undanþága verið veitt með þeim hætti sem lýst er í blaðinu, segir í þessari athugasemd, með leyfi forseta, „hefði gengi krónunnar fallið verulega. Ekkert slíkt hefur gerst, enda engin undanþága af þessu tagi verið veitt“.

Gott er að hugsa og athuga og skyggnast um allar gáttir áður en maður byrjar að tala á þingi. (Gripið fram í.) Við þingmenn ættum kannski að gera meira af því. Þessum fjórum þakka ég fyrir að hafa (Forseti hringir.) eytt fjórum ræðum sínum undir þessum dagskrárlið í ekki neitt.