141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

efnalög.

88. mál
[16:58]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til efnalaga en það felur í sér heildarendurskoðun á gildandi efnalöggjöf. Megintilgangur frumvarpsins er að styrkja framkvæmd efnamála hér á landi þannig að efnaeftirlit sé samræmt á landinu öllu, að tryggja yfirsýn efnamála og auka öryggi almennings vegna efna.

Nauðsynlegt þótti að endurskoða frá grunni núverandi eftirlits- og leyfisveitingakerfi vegna efna hér á landi auk þess að sameina lög um eiturefni og hættuleg efni og lög um efni og efnablöndur ásamt því að samræma löggjöfina evrópskri efnalöggjöf. Ný Evrópulöggjöf sem Ísland þarf að innleiða vegna aðildar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið kallar á nýjar kröfur til framkvæmdar og eftirlits og því er þörf á að styrkja framkvæmd málaflokksins.

Efnaeftirlit er öryggis- og neytendamál og er því í frumvarpinu lögð áhersla á að styrkja þá framkvæmd. Leitast er við að gera eftirlitið markvissara og að ábyrgðin á eftirlitinu verði á einni hendi. Ég tel ómarkvisst og ekki skynsamlegt að byggja upp þessa þekkingu hjá mörgum stjórnvöldum og því eðlilegt að fela Umhverfisstofnun það.

Frumvarp þetta var lagt fram til kynningar á 140. löggjafarþingi en fékk ekki umfjöllun þingsins.

Helstu nýmæli í frumvarpinu eru þau að lagt er til að efnaeftirlit verði fært frá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga til Umhverfisstofnunar í þeim tilgangi að gera eftirlit með efnum markvissara og að tryggja yfirsýn yfir efni á markaði. Umsjón með framkvæmd laganna verði þannig alfarið hjá Umhverfisstofnun en í dag er framkvæmdin ýmist þar eða hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna. Með þessu verði eftirlitið markvissara og betri heildarsýn í málaflokknum. Lögð er aukin áhersla á eftirlit með efnum og efnablöndum framar í aðfangakeðjunni, ef svo má að orði komast, með því að auka eftirlit með birgjum. Með þessu má stuðla að því að tryggja öryggi vegna efna áður en þau eru sett á markað. Þannig er ætlunin að ná betri árangri og draga úr þörf á eftirliti í smásölu.

Gert er ráð fyrir að heilbrigðisnefndir hafi áfram það hlutverk að sinna eftirliti með merkingum efnavara sem hluta af reglubundnu eftirliti með starfsleyfisskyldum fyrirtækjum. Þá er lagt til að leyfisveitingar verði einfaldaðar og gerðar markvissari. Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun vinni sérstaka eftirlitsáætlun til þriggja ára í senn byggða á áhættumati og að stofnunin hafi eftirlit á grundvelli hennar með hliðsjón af ábendingum og tilkynningum frá stjórnvöldum og almenningi. Eftirlitsáætlun hafi að geyma sértæk eftirlitsverkefni og er þannig lagt til að Umhverfisstofnun fari í eftirlit á grundvelli eftirlitsáætlunarinnar svo og í kjölfar ábendinga og tilkynninga frá stjórnvöldum og almenningi. Enn fremur er gert ráð fyrir því að stofnunin fylgist með markaðssetningu og fari eftir atvikum í eftirlit á grundvelli upplýsinga sem berast til dæmis frá tollyfirvöldum. Með þessu fær stofnunin heildarsýn yfir málaflokkinn og fjármunir verða nýttir þar sem mesta hættan er talin vera á að efni ógni heilsu manna, umhverfi eða öryggi.

Framkvæmd efnalöggjafar á að tryggja jafnræði á markaði, þ.e. að gerð sé sama krafa til allra fyrirtækja á landinu. Mikilvægt er að eftirlit sé unnið út frá mati á áhættu og að fjármagn sem varið er í efnaeftirlit verði nýtt sem best.

Lagt er til að Umhverfisstofnun geti með samningi falið öðrum stjórnvöldum sértæk eftirlitsverkefni. Þá er einnig gert ráð fyrir að stofnunin geti falið faggiltum skoðunarstofum framkvæmd eftirlits eða framkvæmd sértækra eftirlitsverkefna. Þá er gert ráð fyrir að hafi Umhverfisstofnun samið við önnur stjórnvöld eða faggiltar skoðunarstofur hafi stofnunin samt sem áður ein heimild til að beita þvingunarúrræðum og stjórnvaldssektum.

Mikilvægt er að beiting þessara úrræða sé með samræmdum hætti á landinu öllu og að tryggt sé að sú þekking sem þarf til að beita slíkum úrræðum sé til staðar og að þeim sé rétt beitt.

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa það hlutverk samkvæmt frumvarpinu að upplýsa almenning um hættu tengda notkun á efnum og efnablöndum þegar þörf er á til verndar heilsu eða umhverfi. Hér má nefna þegar nauðsyn er á að upplýsa um sérstaka hættu á viðkomandi heilbrigðiseftirlitssvæði, svo sem ef loftgæði verða tímabundið slæm vegna klórleka í sundlaug á tilteknu svæði.

Þá hafa heilbrigðisnefndir eftirlit með meðferð, notkun og merkingu efna hjá tilteknum starfsleyfisskyldum atvinnurekstri.

Í frumvarpinu er, eins og ég nefndi áðan, gerð tillaga um að Umhverfisstofnun geti með samningi falið meðal annars heilbrigðisnefnd sértækt eftirlitsverkefni sem yrði þá í samræmi við áðurnefnda eftirlitsáætlun. Þá er Umhverfisstofnun heimilt að fela heilbrigðisnefnd umsjón með aðgerðum á kostnað stofnunarinnar. Lagt er til að heilbrigðisnefndir hafi heimild til að taka að sér verkefni samkvæmt eftirlitsáætlun í umboði Umhverfisstofnunar og samkvæmt samningi þar um. Gerð er tillaga um að Umhverfisstofnun beri kostnað af störfum heilbrigðisfulltrúa í þessu tilviki. Taki tiltekin heilbrigðisnefnd að sér eftirlitsverkefni er gert ráð fyrir að nefndin geti farið út fyrir sitt heilbrigðiseftirlitssvæði enda er verkefnið unnið í umboði Umhverfisstofnunar. Sem dæmi um þetta væri að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur tæki að sér eftirlitsverkefni sem meðal annars fælist í heimsókn til heildsala á höfuðborgarsvæðinu þótt umræddir heildsalar væru til dæmis á Seltjarnarnesi, í Kópavogi og Reykjavík, þ.e. á þremur mismunandi heilbrigðiseftirlitssvæðum. Með þessu er bæði hægt að nýta sérþekkingu og auka samþættingu eftirlits.

Lagðar eru til breytingar á þvingunarúrræðum og viðurlögum frá gildandi lögum og þau ákvæði skerpt. Þá eru þau nýmæli í frumvarpinu að lagt er til að Umhverfisstofnun hafi heimild til að leggja á stjórnvaldssektir til að tryggja að lögunum verði fylgt eftir í reynd.

Fjölmörg ákvæði frumvarpsins byggja að miklu eða öllu leyti á gildandi löggjöf, m.a. í ljósi þess að um nýlegar lagabreytingar er að ræða sem gerðar eru með tilliti til skuldbindinga Íslands vegna EES-samningsins og því auðvitað eðlilegt að þær haldi gildi sínu.

Vegna sameiginlegs innri markaðar á Evrópska efnahagssvæðinu er brýnt fyrir íslenskt atvinnulíf að frumvarp þetta verði að lögum eigi síðar en 1. janúar nk. hvað varðar sérstakan málaflokk sem er snyrtivöruframleiðsla. Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðar EB nr. 1223/2009, um snyrtivörur. Ekki er hægt að setja nýja reglugerð um snyrtivörur hér á landi fyrr en sú lagastoð sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir er komin. Umrædd reglugerð um snyrtivörur veitir grundvöll fyrir markaðssetningu íslenskra snyrtivöruframleiðenda á EES-svæðinu þar sem gert er ráð fyrir að framleiðendur þeirra vara tilkynni sig inn í samevrópskan gagnagrunn. Eftir 11. júlí 2013 er vara sem ekki hefur verið tilkynnt inn í grunninn ólögleg á EES-svæðinu. Hér er því um mikið hagsmunamál að ræða.

Ég tel rétt í þessari umræðu, virðulegur forseti, að vekja sérstaka athygli á því að Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi eru ekki sammála því að efnaeftirlit verði fært frá sveitarfélögum til ríkisins. Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi leggja áherslu á að ef niðurstaðan verði sú að Umhverfisstofnun yfirtaki allt efnaeftirlit verði skýr heimild til að framselja eftirlit með öllum þeim þvingunarúrræðum sem lögin heimila til viðkomandi stjórnvalds. Í frumvarpinu hefur hins vegar verið farin sú leið að gert er ráð fyrir að heilbrigðisnefndir taki þátt í eftirlitsverkefnum og að Umhverfisstofnun geti gert samning við einstök heilbrigðiseftirlitssvæði en hins vegar tel ég rétt að beiting þvingunarúrræða og stjórnvaldssekta verði á hendi Umhverfisstofnunar þar sem stofnunin mun bera ábyrgð á málaflokknum og að tryggt verður að sú þekking sem til þarf til að beita úrræðum af þessu tagi verði þar til staðar.

Ljóst er að styrkja verður mengunar- og heilbrigðiseftirlit hér á landi og á vegum ráðuneytisins er að störfum starfshópur sem hefur það hlutverk að ræða mögulegar útfærslur á framkvæmd við leyfisveitingar og eftirlit samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Starfshópnum er ætlað að taka saman yfirlit yfir helstu hugmyndir sem ræddar hafa verið varðandi eftirlit, kosti þeirra og galla, sem og afstöðu aðila til þeirra. Um er að ræða málefni sem krefst tíma og frekari umræðu. Umfjöllun um hlutverk heilbrigðiseftirlits í landinu mun eiga sér stað á þeim vettvangi. Frumvarpinu er ætlað að leggja grunn að virku og öruggu efnaeftirliti í landinu og er því gríðarlega mikilvægt. Umhverfisstofnun hefur unnið að breytingum á framkvæmd eftirlits og hefur stofnunin unnið að úrbótaáætlun í eftirliti síðan á árinu 2009 og hefur nú ISO 14001 vottun og hefur innleitt eftirlitshandbók vegna mengandi starfsemi. Stofnunin birtir nú eftirlitsskýrslur á netinu, til staðar er eftirlitsgagnagrunnur og lögð hefur verið áhersla á að fá almenning til að taka þátt í framkvæmd eftirlits. Mikilvægt er að stofnun sem sinnir eftirliti geti haft frumkvæði og sé ekki eingöngu í því að bregðast við þegar eitthvað kemur upp á. Ég tel að frumvarpið stuðli að því að stofnunin geti enn frekar unnið með þeim hætti.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á réttinn til heilnæms og öruggs umhverfis og að hagsmunir almennings séu hafðir að leiðarljósi. Lögð er áhersla á að reglur séu skýrar og gagnsæjar, eftirlitið trúverðugt og að ábyrgðin liggi fyrst og fremst hjá þeim sem eiga að fara eftir reglunum.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins, ítreka mikilvægi þess í þágu neytendaverndar og efnaöryggis og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.