141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:26]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eitt sem vefst pínulítið fyrir mér í öllu þessu máli og það er að þetta er í raun þriðja þingið þar sem þessi tillaga er lögð fram. Ég hef verið hugsi yfir því af hverju þetta er ekki afgreitt í gegnum þingið þannig að hér sé hægt að fara að leggja fram einhver alvörumál, mál sem skipta máli upp á afkomu heimilanna, umgjörð fyrirtækjanna og annað slíkt. Getum við ekki sammælst um að drífa þetta mál bara í gegn núna og drífa það þess vegna í gegnum 2. og 3. umr. í næstu viku til að við getum einhent okkur í það sem skiptir máli?

Hvernig stendur á því að stjórnarflokkarnir hafa ekki lagt þá áherslu á málið sem virðist vera í málflutningnum að koma því í gegnum þingið? Þetta er þriðja árið sem reynt er að koma málinu áfram. Það virðist helst vanta viljann hjá stjórnarflokkunum til að koma því í gegn. Við megum ekki gleyma því, virðulegi forseti, að á Alþingi eru stjórnarflokkarnir í meiri hluta og þeir geta hæglega komið hvaða máli sem þeir vilja í gegn. Af hverju drífum við ekki málið í gegn þannig að við getum einhent okkur í að gera það sem skiptir máli fyrir þjóðfélagið?