141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

145. mál
[18:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir framsöguna á þessu nefndaráliti. Í 1. umr. var þetta mál rætt lítillega. Hér er eingöngu um að ræða breytingu á dagsetningu og menn gefa því kannski ekki mikið vægi, en við 1. umr. var, að ég held, bara einn nefndarmaður viðstaddur og ég saknaði þess að þeir voru ekki fleiri. Mér finnst að nefndarmenn eigi að fylgja þeim málum sem fara til nefndarinnar þannig að umræðan rati inn í nefndina.

Nú vill svo til að sú umræða sem hér fór fram endurspeglast ekkert í nefndarálitinu. Í þeirri umræðu ræddi ég um að fyrstu mánuðina eftir að kerfið tekur gildi 1. janúar mun ríkið greiða mjög lítið, og eiginlega ekki neitt í mörgum tilfellum. Það þýðir að sjúklingarnir munu borga mikið, allir sem einn, jafnvel fólk sem er nýbúið að borga mikið í október, nóvember og desember. Fólk sem er búið að bera tiltölulega þunga byrði af lyfjakostnaði, til dæmis langveikt fólk, fyrir utan náttúrlega lækniskostnað, kemur inn í janúarmánuð og þá er bara ekkert greitt af lyfjunum, fólk borgar þau að fullu upp að ákveðnu marki: 44 þús. kr. fyrir öryrkja, aldraða og börn og 66 þús. kr. fyrir aðra og svo er lítill hluti af verðinu umfram þessi mörk. Ég sakna þess að nefndin skuli ekki hafa tekið neitt mið af þeirri umræðu. Maður veltir því fyrir sér, hæstv. forseti, hvort einhver þörf sé á 1. umr. þegar þetta er svona, það fer fram ákveðin umræða, nefndarmenn eru ekki mættir, síðan kemur nefndarálit og umræðan endurspeglast ekki í einni einustu setningu í því.

Ég legg til að hæstv. forseti beri þetta upp í forsætisnefnd og brýni fyrir nefndum að nefndarmenn sitji þau mál sem fara til nefndanna.