141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

gjaldeyrisstaða Landsbankans.

[15:11]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá málshefjanda að þetta er mjög stórt mál og angi af enn stærra máli sem er heildargjaldeyrisjöfnunardæmið fyrir þjóðarbúið með snjóhengjuna innan borðs og síðan uppgjör gömlu og nýju bankanna og þar til viðbótar eign í innlendu bönkunum og loks er það uppgjörsbréf Landsbankans.

Ein ástæða þess að þessar greiðslur eru hærri en menn sáu kannski fyrir í byrjun er sú að bankanum hefur gengið vel og nú stefnir í að B-bréfið sem við köllum svo, uppgjörstækið, verði greitt upp að mestu leyti eða sennilega að fullu, það er yfir 90 milljarðar kr. Það er í sjálfu sér gott, það er vegna þess að bankanum hefur gengið vel og vel hefur unnist úr þessum eignum. En það kemur fyrr til greiðslu en afborganirnar af stóra bréfinu og því var mjög gott að samkomulag tókst um uppgjörið.

Ríkið hefur rutt brautina og farið tvisvar með árangursríkum hætti út á erlendan fjármálamarkað. Það var meðal annars gert til að auðvelda í kjölfarið innlendum aðilum, orkufyrirtækjum og bönkum, að fara að reyna þar fyrir sér. Ég er ekki jafnsvartsýnn og hv. þingmaður á það að ef FME gefur grænt ljós á að styrkur bankanna sé orðinn nægjanlegur, að þeir megi fara að greiða arð o.s.frv., muni aðgangur að erlendum skuldabréfamörkuðum ekki opnast á næstu mánuðum eða missirum.