141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

jöfnun húshitunarkostnaðar.

[15:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ég er ekki fullkomlega sáttur við svar hæstv. ráðherra og hefði viljað sjá pólitíska sýn hans og fá pólitískt svar um hvað hægt sé að gera.

Varðandi Evrópustilskipanirnar er það rétt, og ég tók það upp í þinginu um daginn, að við erum að innleiða þá þriðju. Allan tímann frá upphafi höfum við óskað eftir fullkominni undanþágu frá því að taka þær upp og sú undanþága er alltaf opin en við notum hana ekki. Nú er spurningin hvort hæstv. ráðherra vilji ekki nota þær undanþágur sem við erum að sækja um og höfum alltaf fengið til að fara þessa leið. Það má líka spyrja hvort ekki sé rétta tækifærið núna áður en við innleiðum þriðju tilskipunina á raforkumarkaði að fara og skoða kosti og galla á því að fara annaðhvort undanþáguleiðina eða ganga lengra í aðskilnaði en Evrópusambandið sjálft gerir, eins og gerist því miður oft hér á landi.

Það er líka sérstakt að hæstv. ráðherra gat í tíð sinni sem fjármálaráðherra lagt 12 aura skatt á alla orku í landinu en það er ekki hægt að setja 10 aura jöfnun því að þá kemur einhver í veg fyrir það. Mér finnst það sérkennilegt og við þingmenn Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) með Ásmund Einar Daðason í broddi fylkingar höfum lagt fram þingsályktunartillögu sem (Forseti hringir.) snýst nákvæmlega um þetta. Ég hvet þingið til að horfa jákvæðum augum á hana ef ekkert kemur frá ríkisstjórninni.