141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

staða aðildarviðræðnanna við ESB.

[15:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að flytja mér hina góðu kveðju frá Vesturheimi frá Ólafi Narfasyni. Mér er það mætavel kunnugt að sá maður er góður forsöngvari en þó ekki að því er að Evrópusambandinu lýtur. Ég tel satt að segja að það sé eitt af því fáa sem ég get hrósað mér af að hafa hugsanlega svolítið betri þekkingu á en Ólafur Narfason. (Gripið fram í.)

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þann einlæga og stöðuga áhuga sem hún hefur á framgangi aðildarumsóknarinnar þó að ég telji að vísu, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, að það sé hugsanlega meira en hárfínn blæbrigðamunur á afstöðu minni og nálgun heldur en hennar.

Það var ýmislegt í ræðu hv. þingmanns sem vakti athygli mína. Til dæmis gerði hún ekki að umræðuefni það sem hefur verið krafa forustu Sjálfstæðisflokksins upp á síðkastið, þ.e. að viðræðunum verði slitið. Ég skil það ákaflega vel vegna þess að ég tel að það sé óðs manns æði að slíta viðræðunum eins og forusta flokksins hefur lagt til. Ég tel að það væri sérstaklega óskynsamlegt núna í ljósi skýrslu Seðlabankans (Gripið fram í: Ætlarðu ekki að svara …?) sem kemst að þeirri eindregnu niðurstöðu að Íslendingar eigi aðeins tvo kosti í gjaldmiðilsmálunum, þ.e. að halda áfram með krónuna hugsanlega í bættum klæðum eða ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna í endurbættum herklæðum. Miðað við þá niðurstöðu bankans tel ég að það væri beinlínis skaðlegt hagsmunum Íslendinga að klippa á þann möguleika að Íslendingar geti nokkru sinni í náinni framtíð tekið upp evruna. Ég er ekki einn á þeirri skoðun.

Einn farsælasti formaður Sjálfstæðisflokksins síðustu áratuga og fyrrverandi forsætisráðherra hefur sagt það skorinort að með því að slíta viðræðunum og loka á þann möguleika að taka upp evru væri Sjálfstæðisflokkurinn að gera sig sekan um mestu og hrapallegustu mistök í utanríkispólitískum efnum á síðustu árum. Nú kemur í ljós, frú forseti, að fleiri en ég eru sammála Þorsteini Pálssyni því að hv. þingmaður hlýtur að hníga að þeirri skoðun vegna þess að þetta er fyrsta ræða sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur haldið síðustu sex mánuði í þessum þingsölum þar sem ekki er krafist þess að umræðunum verði slitið.

Hv. þingmaður varpaði til mín nokkrum spurningum um viðræðurnar. Í ljós kom að hún hafði töluvert góðar upplýsingar um flest af því en það sem skiptir máli, frú forseti, eins og hún sagði, er að ég geri ráð fyrir að fyrir áramót kunnum við að vera búin að opna 29 kafla og ljúka samningum um meira en helming þeirra. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði að erfiðu kaflarnir eru eftir í samningalotunum en það þýðir að við getum þá hafið samninga um mikilvæga og erfiða kafla eins og gjaldmiðilinn, tollamál, matvæli, umhverfismál og líka byggðamálin. Ég tel að það sé góður gangur, ekki síst miðað við það nýja ferli sem menn beita um þessar mundir og er allt öðruvísi en þegar EFTA-ríkin gengu inn 1994.

Hv. þingmaður spurði mig sérstaklega um fjórða kafla. Það er rétt að af þeim fjórum sem verða þá eftir um áramótin, það voru tveir kaflar, 3. og 4. sem ESB hefur viljað taka samferða sjó. En rétt er að það komi fram að á þá er komin hreyfing og ætla má að hægt verði að opna þá á nýju ári.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði um landbúnaðarkaflann, honum hefur seinkað en ég hef aldrei ásakað neinn sérstakan um það. Ég tel reyndar eftir á að hyggja að það hafi bara verið heppilegt og glætt skilning Evrópusambandsins á sérstöðu íslensks landbúnaðar. En ég vil upplýsa hv. þingmann um það að á föstudaginn gerðust þau merku tíðindi að af hálfu ESB var fallist á það með hvaða hætti við viljum uppfylla opnunarviðmið í landbúnaði, þannig að það er frá. Ég geri ráð fyrir að það megi þá taka til við samninga á þeim málaflokki innan tíðar.

Um sjó er það alveg hárrétt sem hv. þingmaður hefur sagt að það eru mér vonbrigði eins og fleirum að ekki skuli hafa tekist að opna þá. Ég tel að það sé alveg ljóst að á fyrri stigum þess máls tafði endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar það. En hitt hef ég líka sagt alveg skýrt að gera mætti ráð fyrir því á síðari stigum þessa máls að makríll mundi fara að spila inn í það og ég tel að það hafi gerst núna. Við höfum séð viðbrögð einstakra ríkja, ekki síst vina okkar og frænda Íra. Þeir eru okkur óskaplega reiðir og hafa haft uppi heitingar í þeim efnum.

Hv. þingmaður spyr mig hvort ég geri ráð fyrir að sett verði opnunarviðmið. Ég get ekki svarað því. En hitt er alveg ljóst að einstakar þjóðir þrýsta á um það. Það eru líka þungar stuðningsþjóðir sem við höfum með okkur í því efni sem eru algerlega á móti því.

Hvað evruna varðar hafa alltaf verið snillingar í þessu þingi sem hafa miklu meira vit á evrunni en allir aðrir og hafa spáð henni falli. Hvernig eru fréttirnar núna? Ég held að evran sé langt frá því að falla. Þvert á móti er hún að styrkjast að ýmsu leyti þessa dagana.

Hv. þingmaður spyr mig síðan um það Evrópusamband sem við erum að fara að ganga í. (Forseti hringir.) Miðað við síðustu viðbrögð og undirtektir við ræðu Barrosos þá er það ekki sambandsríkið.