141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

staða aðildarviðræðnanna við ESB.

[16:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Spurt er í þessari umræðu að hvaða Evrópusambandi við séum að sækja um aðild? Því er auðsvarað: Að Evrópusambandinu. Það breytist og það þroskast eins og aðstæður Íslands breytast. Lærdómur okkar af hruninu fyrir fjórum árum er ekki síst sá, það hljótum við að skilja, að sambúð sjálfstæðs gjaldmiðils og opins fjármálakerfis er illmöguleg. Við verðum að bregðast við þeim aðstæðum. Hvernig er Evrópusambandið að bregðast við þeim hættum sem af slíku leiðir? Jú, með því að koma á sameiginlegum lánveitanda til þrautavara, sameiginlegu innstæðutryggingakerfi þvert á landamæri og sameiginlegu fjármálaeftirliti.

Er eitthvert land sem hagnast meira á því en Ísland? Nei. Er eitthvert land sem hefur orðið fyrir meira tjóni vegna þess að þessu var ekki til að dreifa í umgjörð hins Evrópska efnahagssvæðis? Nei. Eiga þá skilaboðin að vera þau að Ísland treysti sér ekki til að miðla af reynslu sinni um það hvernig útbúa eigi hagvarnir fyrir Evrópu? Auðvitað ekki. Auðvitað er það þar sem við eigum að sitja og miðla af reynslu okkar. Við eigum að hjálpa til við að búa til umgjörð sem hentar okkur og þjóðum Evrópu fram í tímann.

Hitt atriðið er umgjörð um ríkisfjármál og efnahagsmál. Er einhver þjóð sem mundi hagnast meira á því en Ísland að fá aga um ríkisfjármál og hagstjórn? Ónei. Allar efnahagskreppur hér á landi, að frátalinni síldarkreppunni 1968, hafa stafað af innlendum hagstjórnarmistökum. Það er því engin þjóð sem hefur haft jafnmikið tjón af óheftu frelsi til hagstjórnarmistaka en Ísland.

Hvað þýðir þetta annað en að staður okkar er í Evrópu? Við eigum að taka þátt í því að móta þær leikreglur sem best geta varið íslenskan almenning og almenning annars staðar í Evrópu gegn hættum sem felast í opnu viðskiptakerfi.

Við getum (Forseti hringir.) ekki að óþörfu lokað dyrum. Við búum við viðkvæmar aðstæður. Við vitum ekki hvernig (Forseti hringir.) við getum losnað við höft án aðildar að Evrópusambandinu (Forseti hringir.) og það er fáránlegt að loka þeim dyrum sem mögulega opna okkur bestu leiðina til þess.