141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

skipulag sérstakrar umræðu.

[16:20]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil þakka utanríkisráðherra fyrir að taka undir með mér í þessu samhengi …

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmann um að ávarpa hæstv. ráðherra rétt.)

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra. Ef ég hef ekki ávarpað hann rétt hef ég gert það óafvitandi og bið forláts á því. En það sem ég vildi sagt hafa var að ég held að hér hafi komið glögglega í ljós að þessi umræða er hvergi nærri tæmd. Ef hæstv. utanríkisráðherra telur sig ekki hafa getað svarað öllum þeim spurningum sem til hans var beint ætla ég formlega að ítreka þá beiðni sem hefur margoft verið lögð fram um að fá sérstaka og langa skýrsluumræðu um Evrópusambandið. Við sáum það í fyrra þegar við ræddum skýrslu utanríkisráðherra að Evrópusambandsumræðan tók þá umræðu yfir. Ég vil óska eftir því við hæstv. utanríkisráðherra að hann gefi (Forseti hringir.) þinginu langa, munnlega skýrslu um stöðuna í (Forseti hringir.) Evrópumálunum og að umræðan verði skipulögð þannig að allir þingmenn sem svo kjósa geti tekið þátt í henni.