141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

háskólanemar og námsstyrkir.

114. mál
[17:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er mjög jákvætt að hún fylgi þessu máli eftir sem hún vakti hér máls á fyrr á kjörtímabilinu. Það er rétt sem hún rifjar upp, þetta var til umræðu og í kjölfarið var lögum breytt þannig að nemendur undir 18 ára aldri sem stunduðu háskólanám eða nám á háskólastigi ættu rétt á námsstyrkjum eins og nemendur á sama aldri. Það var hins vegar ekki talin fær leið að veita þeim rétt til námslána í ljósi þess að þeir væru ekki orðnir fjárráða.

Hv. þingmaður spyr um fjölda nemenda. Nemendur, sumir hverjir, útskrifast raunar fyrr en áður og ekki síst í þeim skólum sem hafa tileinkað sér nýjar námskrár að fullu. Þeir útskrifast fyrr en þó flestir ekki fyrr en við 18–19 ára aldur. Þegar við skoðum hvað margir nemendur undir 18 ára aldri stunduðu nám á háskólastigi í íslenskum háskólum eftir að þessi lög tóku gildi, þá er þar einungis um einn nemanda að ræða.

Hv. þingmaður spyr hversu margir nemendur hafi þegið námsstyrki á grundvelli þessara laga. Því er til að svara að enginn nemandi hefur nýtt sér þetta lagaákvæði.

Hv. þingmaður spyr líka hvernig að kynningu málsins hafi verið staðið. Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir þá fyrirspurn því að í kjölfarið skoðaði ég heimasíðu lánasjóðsins. Þar er ekki vakin sérstök athygli á því ákvæði. Lánasjóðurinn heldur lögum samkvæmt utan um námsstyrkina og upplýsingar er að finna á heimasíðu sjóðsins, en þetta nýja ákvæði hefur ekki ratað þangað inn og námsstyrkirnir ekki verið kynntir sérstaklega.

Í kjölfarið á fyrirspurn hv. þingmanns fór ég þess á leit við stjórn námsstyrkjasjóðs og lánasjóðsins að vakin yrði sérstök athygli á þessum möguleika fyrir háskólanema sem ekki hafa náð 18 ára aldri. Ég á því von á að gerð verði breyting á því til batnaðar og þakka hv. þingmanni fyrir ábendinguna.