141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

kennsla í næringarfræði.

157. mál
[17:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Af því að hann gerði að umtalsefni grunnskólalögin þá byggjum við núna á lögum sem sett voru árið 2008 og var unnið að þeim í breiðu samráði við skólasamfélagið, foreldrasamfélagið og þótt víðar væri leitað, og líka hér á Alþingi á sínum tíma. Þar er nemandinn í forgrunni. Segja má að orðið hafi ákveðin breyting á löggjöfinni þannig að nemandinn fór í raun og veru í miðdepil löggjafarinnar. Hv. þingmaður nefndi velferð og vellíðan, það er mál sem kemur fram í þeim lögum. Við sjáum líka í alþjóðlegum rannsóknum þegar við berum okkur saman við önnur ríki að íslenskum nemendum líður almennt vel í skóla. Það er auðvitað eitthvað sem er ánægjulegt og skiptir máli að nefna.

Segja má að eitt af meginstefjum í starfi grunnskóla, í samvinnu við heimilin að sjálfsögðu, sé velferð barna. Þar skiptir máli heilbrigði og hollar lífsvenjur. Aukna áherslu er að finna í lögum og reglugerðum á mikilvægi heilbrigðis og hollar lífsvenjur, mun meiri áherslu en verið hefur.

Ég vil nefna nýja aðalnámskrá fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla sem var birt í fyrra. Þá var birtur sameiginlegur hluti A-námskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem eru dregnir fram grunnþættir menntunar ásamt áhersluþáttum þeim sem eru tilgreindir í 24. gr. grunnskólalaganna. Þeir afmarka þá hæfni sem nemendur eiga að tileinka sér í grunnskóla. Svo eru í aðalnámskrá útfærð nánar ákvæði laga um námsgreinar og námssvið og sagt til um áherslur á vægi. Viðmiðunarstundaskrá sem sýnir hlutfallslegt vægi milli námsgreina og námssviða er svo hluti af aðalnámskrá. Það er síðan í valdi hvers grunnskóla að ákveða hvort námsgreinar og námssvið séu kennd aðgreint eða samþætt en um leið þarf að gæta að því að námið sé sem heildstæðast.

Einn af þeim grunnþáttum sem ég nefni er heilbrigði og velferð. Þar er lögð aukin áhersla á að allt skólastarf þurfi að efla; heilbrigði og stuðlað sé markvisst að velferð og vellíðan enda verja nemendur stórum hluta dagsins í skóla. Þeim grunnþætti er ætlað að ganga í gegnum aðrar námsgreinar, þ.e. ætlunin er að samþætta hann inn í námsgreinar.

Af því að hv. þingmaður nefnir sérstaklega næringarfræðina er nærtækt að líta á námskrá fyrir list- og verkgreinar þar sem námsgreinin heimilisfræði tilheyrir þeim kjarna. Í þeim drögum sem nú liggja fyrir kemur fram að þekking og leikni í heimilisstörfum sé kjarni heimilisfræðinnar. Honum tengjast allir þættir námsins, fræðilegir sem verklegir. Þetta er að upplagi verkleg grein en í henni eru hins vegar órjúfanleg tengsl á milli næringarfræði og matreiðslu. Hún tengist ekki aðeins grunnþættinum heilbrigði og velferð heldur líka sjálfbærni í grunnþættinum sem er nátengdur næringarfræðinni. Það er öllum orðið æ ljósara að miklu máli skiptir hvernig staðið er að matvælaframleiðslu og hvernig matvælin eru sem við látum inn fyrir okkar varir. Það er lykilatriði í hollustunni líka, þarna koma tveir grunnþættir mjög sterkt inn í.

Gert er ráð fyrir samþættri kennslu í matreiðslu og næringarfræði þannig að nemendum sé gert kleift að átta sig á því hvaða næring er í matnum, hvernig er best að matreiða hann til að varðveita næringarefnin sem best, hvaðan maturinn kemur, átta sig á þessu alltumlykjandi hlutverki sjálfbærninnar og að sjálfsögðu er slík þekking nauðsynlegur undirbúningur fyrir lífið og seinni tíma hlutverk barna og ungmenna sem foreldrar.

Gert er ráð fyrir að opinberar ráðleggingar landlæknisembættis um mataræði og næringu séu nýttar til hliðsjónar. Hins vegar er auðvitað hægt að koma kennslu og námi um næringarfræði við innan fleiri námssviða. Hv. þingmaður nefndi lífsleikni, það hefur verið hluti af henni líka, kannski meira út frá hinum fræðilega grunni, ekki hinum verklega. Það sama má segja um kennslu í ýmsum samfélagsgreinum þar sem skiptir máli að nemendur átti sig á þeirri ábyrgð sem þeir taka með því að velja tiltekna kosti, til að mynda þegar kemur að þessum málum.

Við lítum svo á að stefnt sé að því að efla kennslu og menntun sem lýtur að næringarfræði í grunnskólum. Við horfum á það í gegnum þessa grunnþætti og teljum mikilvægt að það sé samþætt, ekki aðeins inn í heimilisfræðina sem er kannski fasta kjarnagreinin í þessum efnum, heldur komi líka við sögu í öðrum námsgreinum.