141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:19]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er ekkert óskiljanlegt við það að hér komi fram tillaga um að vísa breytingartillögu Sjálfstæðisflokksins við rammaáætlun til umhverfis- og samgöngunefndar (Gripið fram í.) sem þegar hefur verið vísað þangað frá Alþingi sjálfu. Hins vegar virðist hafa farið fram hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að 1. september sl. varð sú breyting á skipulagi og verkaskiptingu í Stjórnarráðinu (Gripið fram í.) að forsjá rammaáætlunar var flutt til umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Sá ráðherra sem flutti tillöguna í þinginu vísaði henni að svo búnu til umhverfis- og samgöngunefndar þingsins. (Gripið fram í.)

Þetta er samkynja mál sem við ræðum og reyndar sama mál með öðrum formerkjum og áherslum eins og hér hefur verið tíundað. Það er fráleitt verklag sem hér er stungið upp á að vísa máli í aðra fastanefnd (Forseti hringir.) sem þegar er til umfjöllunar í nefnd samkvæmt ákvörðun Alþingis.