141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[18:05]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Einhver hv. þingmaður nefndi það áðan að því miður virtist sem svo að ekki lægi mikil þekking að baki greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu og ég hlýt að taka undir það eftir síðustu ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Ég skora á hv. þingmann að afla sér upplýsinga um það hversu oft menn geta notað Reykjavíkurflugvöll sem varaflugvöll þegar Keflavíkurflugvöllur er lokaður. Ég held að það gæti verið upplýsandi fyrir hv. þingmann að kynna sér það, að skoða staðreyndir, eins og hann nefndi.

Það er ekki nóg að fylgt sé ýtrustu öryggisreglum í flugi. Það þarf líka að vera ýtrasti öryggisbúnaður á flugvöllum og Reykjavíkurflugvöllur er þannig að þar eru ekki einu sinni akstursbrautir og talsvert miklar hindranir í bæði aðflugi og brottflugi. Það eru líka staðreyndir sem ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér.