141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

tillögur stjórnlagaráðs.

[15:43]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nú ber nýrra við. Ég fagna mjög þessum áhuga sjálfstæðismanna, hv. þm. Péturs H. Blöndals og fleiri af hans tagi, að ræða efnislega um stjórnarskrána. Þetta er í fyrsta sinn, þetta er fyrsti dagurinn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið með slíka tillögu eða borið sig til við að gera það.

Hv. þm. Pétur Blöndal hefur heima hjá sér ofan í skúffu 40 síður af efnislegum athugasemdum við stjórnarskrána sem hann hefur því miður ekki fengið að bera fram hér á þinginu með nokkrum hætti. Og hv. þm. Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur eina athugasemd við eina grein og hann ætlar að taka heilan dag í að ræða þá athugasemd hér.

Ég fagna þessu og ég skora á forseta að efna til slíks málfundar annaðhvort hér í þingsölum eða þá í nærliggjandi húsum. Á Thorvaldsen er til dæmis ágætt húsnæði til að gera það. Ekki er búið að leggja niður Nasa, við gætum farið þangað, þannig að stjórnmálamenn á þinginu geri sjálfum sér og öðrum grein fyrir því hvað þeim finnst efnislega um tillöguna. Ég fagna þessu og tel það áfanga í stjórnarskrármálinu að Sjálfstæðisflokkurinn hafi komið sér upp skoðunum, 40 síðum á einn bóginn og einni athugasemd á hinn veginn.