141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[11:59]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir þá munnlegu skýrslu sem hún hefur birt okkur um þetta mikilvæga mál.

Eitt af sérkennum íslensks samfélags fyrir hrun var þöggun og meðvirkni. Það var grundvallarafstaða og viðbragð stjórnvalda gagnvart fjármálakerfinu sem komst upp með það í kyrrþey að hanna glæpsamlega svikamyllu gagnvart almannahagsmunum í kjölfar einkavæðingar bankanna á síðasta áratug, að það kerfi ætti að fara sínu fram. Það hefur líka verið grundvallarafstaða stjórnkerfisins gagnvart íslenskum fjölmiðlum að upplýsa frekar um minna en meira, beita fyrir sig trúnaðarskyldu og freista þess að halda upplýsingum frá almenningi ef þess væri kostur. Þetta var ráðandi viðbragð fyrir hrun en við skulum viðurkenna að þessi tilhneiging lifir enn góðu lífi í íslenska stjórnkerfinu eftir hrun.

Það eru of mörg dæmi um það að til dæmis þingmenn hér á Alþingi hafi þurft að ganga eyðimerkurgöngu til að fá út úr stjórnkerfinu upplýsingar sem þeir telja sig þurfa að hafa til að geta gegnt skyldu sinni og veitt framkvæmdarvaldinu aðhald. Í þessu ljósi verður til dæmis að skoða málefni tengd bókhaldskerfi ríkisins og viðbrögð Ríkisendurskoðunar sem árum saman lét hjá líða að upplýsa löggjafarþingið um miklar misfellur í framkvæmd máls sem tengdist grundvallarhagsmunum ríkisins og almennings.

Þingsályktunartillaga Birgittu Jónsdóttur og fleiri þingmanna var mjög merkilegt skref í þá átt að snúa af þeirri braut og treysta upplýsingastreymi til almennings. Þar réði för eftirtektarverður metnaður til þess að Ísland tæki ósvikna forustu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis í alþjóðlegu samhengi. Þetta framtak er því mikilvægur liður í því að efla lýðræðið í landinu og styrkja stöðu almennings í því að veita stjórnvöldum á hverjum tíma nauðsynlegt aðhald. Þetta mál er mikilvægt frá sjónarhóli lýðræðis og verndar almannahagsmuna en það er líka öðrum þræði athyglisvert innlegg í nýja atvinnustefnu fyrir Ísland því að eitt af markmiðum tillögunnar er að skapa framsækið umhverfi fyrir skráningu og starfsemi alþjóðlegra fjölmiðla og útgáfufyrirtækja, sprotafyrirtækja, mannréttindasamtaka og gagnaversfyrirtækja á Íslandi. Það er atriði sem ég vil vekja sérstaka athygli á því að fyrir liggur mat á ótvíræðri samkeppnishæfni Íslands varðandi uppbyggingu gagnavera. Það er hins vegar ljóst að hún mun ekki ná miklu flugi, sú uppbygging, nema fyrir liggi vandaður lagarammi um málaflokkinn þar sem tryggð er vernd upplýsinga, heimildarmanna og afhjúpenda.

Það er rétt að minna á að ákveðin mikilvæg skref voru stigin hér í þinginu varðandi vernd heimildarmanna með samþykkt fjölmiðlalaga hér á Alþingi á síðasta ári. Þar var til dæmis stigið það skref að ábyrgð á ummælum sem höfð eru rétt eftir viðmælanda liggi hjá viðmælandanum sjálfum en ekki fréttamanninum sem hefur ummælin eftir. Þetta hefur beina skírskotun í þau mál sem hv. þm. Þór Saari nefndi hér fyrr í umræðunni og tók beint á veilu í löggjöf okkar og leiðrétti hana, sem hafði leitt til dóma gegn íslenskum blaðamönnum sem Mannréttindadómstóll Evrópu sneri góðu heilli við í nýlegum dómum.

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi þingsályktunartillaga sem er kveikjan að þessari umræðu hafi verið í hópi merkustu þingmála sem flutt hafa verið á þessu kjörtímabili. Ég vil þakka 1. flutningsmanni hennar, Birgittu Jónsdóttur, fyrir hennar forustu í þessu máli. Ég vil líka þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir það hve snöfurmannlega hún hefur tekið á þessu máli í ráðuneytinu með skipan starfshóps sem greinilega er að vinna gott starf í þessu máli. Viðbrögð hæstv. ráðherra bera vott um breytt viðhorf til upplýsingamála meðal stjórnvalda og það eru mikil og góð tíðindi fyrir almenning í landinu.