141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

180. mál
[12:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka þessa framsöguræðu og sérstaklega þau orð er tengjast ábendingu Landssamtaka Þroskahjálpar. Rétt er að taka fram strax að ég sit í þeirri stjórn þannig að að einhverju leyti er mér málið kannski skylt, en engu að síður veit ég að samtökin sendu inn þá umsögn sem er á vefnum. Mér finnst mikilvægt að það hafi komið fram einmitt í máli framsögumanns, það er eitt af lögskýringargögnunum, að menn telja ekki staðar numið varðandi endurskoðun á kosningalöggjöfinni.

Ég harma það að ekki skuli hafa verið haft samráð við Þroskahjálp og aðra fatlaða af hálfu ráðuneytisins við samningu frumvarpsins en tel mikilvægt að þingið lýsi yfir þeim vilja sínum sem kemur fram í máli framsögumanns um frekari endurskoðun þannig að hægt verði að koma til móts við þarfir fatlaðra, allra fatlaðra. Ég vil vitna í umsögn Þroskahjálpar, með leyfi forseta:

„Fólk með þroskahömlun margt hvert getur sökum fötlunar sinnar átt erfitt með að koma vilja sínum með tryggum hætti á framfæri á kjörseðli. Samkvæmt núgildandi lögum á það ekki rétt á að fá aðstoð til að auðvelda því það og fyrirliggjandi frumvarp um breytingar á kosningalögum bætir ekki þar úr.“

Þetta er dæmi um það viðfangsefni sem við okkur blasir.

„Nú stendur fyrir dyrum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs. Samkvæmt 12. gr. laga um þjóðaratkvæðagreiðslur fer um „atkvæðagreiðsluna utan kjörstaða og á kjörstað samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis“.

Í þeirri atkvæðagreiðslu verða 6 spurningar. Sumar spurningarnar eru nokkuð langar og ítarlegar (22 orð) og svörin við spurningunum líka (14 orð). Auk þess á að vera skýringartexti á seðlinum upp á að minnsta kosti 80 orð. Slíkur texti uppfyllir illa skilmerki laga um að vera auðskilinn og aðgengilegur.“

Landssamtökin Þroskahjálp draga það fram að við þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem verður eftir níu daga — og við allar aðrar kosningar sem við förum í, ég spái því að við munum standa frammi fyrir fleiri þjóðaratkvæðagreiðslum — að menn hafi það í huga að fatlað fólk (Forseti hringir.) geti skilið það sem um er verið að kjósa á skilmerkilegan og skýran hátt og tekið sé tillit til allra þarfa allra fatlaðra. Þess vegna spyr ég: Er það ekki réttur skilningur minn að ætlunin sé (Forseti hringir.) að endurskoða enn frekar ákvæði með tilliti til þessarar umsagnar?