141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

180. mál
[12:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Barátta fatlaðs fólks, bara það að ég skuli nota orðið fatlað fólk, hefur verið löng og ströng. Um það leyti sem ég kom inn á þing var staða fatlaðra afskaplega bágborin. Þá tíðkuðust ekki sérbýli og önnur þjónusta var í miklu minna mæli og staða fatlaðra var mjög slæm. Hún batnaði verulega á þeim tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn, ég verð að segja það. Hann réð náttúrlega ekki einn, þó að margir vilji láta þannig að hann beri einn ábyrgð á öllu saman sem þá gerðist, en þá hlýtur hann að fá líka hrós fyrir það sem hann gerði vel á þeim tíma.

Eitt af þeim skrefum er að fatlaðir geti kosið eins og aðrir borgarar, að sjálfsögðu. Fyrir síðustu kosningar kom sá vandi upp og ég verð að segja um það að sá fatlaði sem hefur haft mest áhrif á mig, Freyja Haraldsdóttir, hefur verið afskaplega ötul í baráttu sinni fyrir stöðu fatlaðra og á hún mikið hrós skilið fyrir það. Hún og fleiri vöktu athygli á þessu fyrir síðustu forsetakosningar sem fóru fram 30. júní. Þá hugleiddi ég hvort við þingmenn gætum ekki gert eitthvað því að ég tel að allir hv. þingmenn séu hlynntir því að staða fatlaðra sé bætt að þessu leyti. Það er eiginlega spurningin um hugkvæmni, frumkvæði og að koma hlutum í verk.

Þótt ég sé á móti bráðabirgðalögum lagði ég til við ýmsa aðila innan þingsins að sett yrðu bráðabirgðalög og kom með hugmyndir að því. En ekki var vilji til þess vegna þess að menn eru á móti bráðabirgðalögum og þær hugmyndir hafa því ekki verið ræddar út í hörgul.

Fötlun getur verið margvísleg. Fólk getur verið alsjáandi, fljótt að skilja og annað slíkt en er fatlað að öðru leyti. Það getur þar af leiðandi, með aðstoðarmanni sem það velur sér og treystir, alveg séð kjörseðilinn þegar búið er að fylla hann út. Sá aðstoðarmaður veit hvernig hinn fatlaði kaus og ekkert meir. Ef traust er á milli þeirra þá gerir það ekkert til, en hinn fatlaði ákveður hvernig kosið er. Þetta er leyst á þennan veg í þessum hópi fatlaðra. Reyndar finnst mér slæmt að stöðva þurfi kosningu til að gera þetta vegna þess að þá er verið að undirstrika fötlun mannsins sem er alveg óþarfi. Auðvitað geta menn gert þetta inni í rúmum kjörklefa. Kannski yrði þá að hafa sérklefa á hverjum kjörstað, eitthvert afdrep þar sem aðstoðarmaður og hinn fatlaði geta fyllt út kjörseðilinn. Síðan er kjörseðlinum stungið í kassann að hinum fatlaða ásjáandi. Þetta er það sem Freyja Haraldsdóttir fékk einmitt í gegn með harðfylgi sínu, sem er dálítið merkilegt því að þetta er ekki í samræmi við lög, en hún fékk þetta í gegn með harðfylgi sínu og á heiður skilinn, en aðrir fengu það ekki. Því var ákveðin mismunun í síðustu kosningum.

Svo eru þeir sem eru blindir. Bent hefur verið á að þeir geti notað skapalón yfir kjörseðlinum ef þeir kunna blindraletur, sem fer reyndar fækkandi vegna nýrrar tækni sem er stórkostleg fyrir fatlaða, tölvutæknin. Þeir sem kunna blindraletur geta sem sagt lesið textann á skapalóni og krossað við og vita þá hvernig þeir kusu og þurfa í reynd ekki aðstoðarmann, ekki endilega.

En svo eru blindir sem kunna ekki blindraletur og þar finnst mér að að leita þurfi í smiðju til blindra. Hvernig getið þið séð þetta fyrir ykkur? Getur verið að aðstoðarmann þurfi fyrir þann blinda til að fylla út seðilinn og síðan annan aðstoðarmann sem hinn blindi óskar eftir úr kjörstjórninni til að staðfesta og lesa fyrir hinn blinda það sem stendur á seðlinum? Það eru svona vandamál sem mér finnst að þingið og hv. nefnd sem um þetta fjallar eigi að leysa með aðstoð blindra og fatlaðra.

Svo er það sá hópur fatlaðra sem ekki skilur hluti eins og skot og á í erfiðleikum með að skilja eða þarf tíma til að skilja, við skulum orða það þannig, mér finnst að taka þurfi líka mið af því. Það þarf kannski að lesa upp textann rólega fyrir hinn fatlaða og gera honum grein fyrir að hann eigi að krossa á vissum stað o.s.frv. Hann getur verið blindur eða alsjáandi eftir atvikum. Það eru því ýmsir hópar af fötluðum sem mér finnst þetta frumvarp ekki taka mið af. Mér finnst nefnilega að þessi síðasti hópur sem ég nefni sé ekki inni í þessari lausn og það er miður.

Þá kem ég að spurningunni: Hver er það sem semur frumvarpið og af hverju kemur það svona seint fram? Það er náttúrlega löngu vitað að þjóðaratkvæðagreiðsla verður eftir níu daga, það er löngu vitað. Auðvitað átti það að koma miklu fyrr fram eða — sem ég hef margoft hvatt til — að nefndir þingsins sýni frumkvæði í því að semja lög sjálfar. Hv. nefnd hefði getað fengið til sín fulltrúa frá þessum þrem hópum og rætt við þá hvaða hugmyndir þeir hefðu um lausn á þeim vanda og þá hefði kannski komið eitthvað betra út úr þessu, ég veit það ekki. Mér finnst þessi texti vera mjög þunglamalegur, þessi lagatexti er mjög stór og mikill og þá er alltaf hætta á að hann sé ekki nógu markviss. Svo hefur verið bent á, og ég tek undir það, að það er dálítið ankannalegt að menn mæti á kjörstað og þá er kjörstaðnum lokað — fyrir mig. Það er atriði sem ég held að nefndin hafi ekki tekið á — (Gripið fram í: Jú, jú.) er það já? Ég hef þá misst af því en það er vel ef tekið hefur verið á því. Það þarf ekki endilega að undirstrika fötlun fólks, nógur kross er það samt að vera fatlaður. Nefndin hefur þá sem sagt tekið á þessu og á fleiri atriðum.

Nú er ég ekki í nefndinni, ég er þar varamaður, þannig að ég hef ekki fylgst alveg með umræðunni út í hörgul. En ég tel að frumvarpið og breytingar frá nefndinni séu mjög jákvæðar. En látum okkur ekki detta í hug að þetta sé hin endanlega góða lausn. Það munu örugglega koma upp einhverjir hnökrar núna og menn þurfa að leggjast yfir þetta aftur og menn þurfa að vinna það áfram.

Ég skora á hv. nefnd að vera komin tímanlega með gott frumvarp eftir að hafa heyrt í fötluðum, öllum mismunandi hópum fatlaðra, hvernig hver og einn sér fyrir sér að þurfa að leysa sínar þarfir, þannig að við verðum komin fyrir alþingiskosningarnar — það er bara skoðanakönnun eftir níu daga eftir því sem sagt er, hún hefur ekki neitt gildi í sjálfu sér, lögformlega, en alþingiskosningarnar eru náttúrlega töluvert stærra og meira mál. Og þá vil ég endilega að niðurstaða liggi fyrir sem fatlaðir hafa tekið þátt í að smíða, hver hópur, og að þær lausnir séu þannig að þær taki mið af öllum þeim mismunandi þáttum sem valda vandkvæðum. Þetta er eitt lítið skref í réttindabaráttu fatlaðra og sannanlega og vissulega er töluvert mikið óunnið í lagasetningu í kringum málefni fatlaðra.