141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þetta mál kemur inn í þingið til umræðu að nýju, það var tekið fyrir á síðasta vetri en hlaut ekki afgreiðslu. Ég er þeirrar skoðunar að ýmsu þurfi að hnika til í frumvarpinu og hef áhyggjur af ákveðnum þáttum á borð við möguleikanum á dótturfélagi sem kann að opna fyrir margvíslega samkeppnisstarfsemi sem ég tel utan við hið eðlilega starf Ríkisútvarpsins. Ég er þeirrar skoðunar að ef við höfum á annað borð ríkisútvarp eigi starfssvið þess að vera þröngt. Það svið sem markaðurinn sinnir og sinnir að mörgu leyti ágætlega eigi ekki að vera vettvangur sem ríkisútvarp keppir á. Ef ríkisútvarp hefur það hlutverk að reka ákveðna öryggisþjónustu, fréttaþjónustu, vera vettvangur fyrir lýðræðislega umræðu og menningarlega starfsemi, á starfsemi þess að miðast við það og ekki annað. En ég hef áhyggjur af því að í frumvarpinu séu skilgreiningar það víðar að því sé í raun lítil mörk sett hvar Ríkisútvarpið getur borið niður í starfsemi sinni. Það finnst mér galli og tel að vandlega þurfi að fara yfir þann þátt í meðferð málsins í þinginu.

Ég lýsti því yfir á síðasta þingi þegar málið kom til umræðu að með því sviði sem þarna er um fjallað og sagt er að eigi að þrengja eða takmarka svigrúm Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði sé þröskuldurinn settur þannig að hann muni ekki hafa mikil áhrif í raun og veru. Þetta breytir litlu miðað við núverandi skipan.

Fleiri þáttum finnst mér ástæða til að leiða hugann að sem snerta fyrst og fremst að hvaða leyti ríkið ætlar að standa í fjölmiðlarekstri í samkeppni við einkaaðila. Ég geri mér grein fyrir því að sjónarmið mín í þessum efnum kunna almennt talað að vera minnihlutasjónarmið í þessum sal. Mitt einlæga viðhorf er að ríkið hafi ekki það hlutverk að reka fjölmiðlaþjónustu. Ríkið getur ýtt undir fjölmiðlastarfsemi á ýmsum sviðum með einhver markmið í huga, en að ríkið reki fjölmiðlafyrirtæki er ekki í samræmi við mínar hugmyndir.

Sé það vilji meiri hluta þingsins að ríkið haldi áfram að reka fjölmiðlafyrirtæki er ég einlæglega þeirrar skoðunar að sú starfsemi eigi að takmarkast við það svið sem einkaaðilar sinna ekki. En ég fæ ekki betur séð en að frumvarpið, eins og það lítur út, gefi Ríkisútvarpinu miklu víðtækara svigrúm.

Það má segja margt um lagaumhverfi Ríkisútvarpsins að öðru leyti en ég ætla ekki að fara í það í löngu máli. Velta má fyrir sér hvort ekki hefði verið tilefni til að skoða betur reynsluna af því rekstrarformi sem hér var valið af meiri hluta þings fyrir nokkrum árum. Ég verð að játa að þrátt fyrir að ég greiddi atkvæði með því að Ríkisútvarpið yrði opinbert hlutafélag á sínum tíma hef ég efasemdir um það fyrirkomulag. Ég tel að við ættum að minnsta kosti að taka það til endurskoðunar, hver sem niðurstaðan verður.

Það má líka velta fyrir sér skipulagi stjórnar sem komið er inn á í frumvarpinu og ég tel að þurfi að skoða í meðferð málsins. Við 1. umr. finnst mér mikilvægast að árétta þetta. Vilji menn hafa ríkisútvarp sem þjónar vel skilgreindum almannahagsmunum á sviði fréttaflutnings, menningar og hvað menn vilja, eigi þeir að marka stofnuninni starfsramma sem er í samræmi við markmiðin, en ekki að Ríkisútvarpið sé rekið á þeirri forsendu að það eigi að hafa menningarhlutverk og fréttaflutningshlutverk, en svo geri það bara fullt af öðrum hlutum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri. Ég held að það sé afar mikilvægt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari vandlega yfir málið og í samhengi við væntanlegar breytingar á fjölmiðlalögum, því auðvitað er þar um ríkt samhengi að ræða. Ég verð að segja að eins og mér sýnist þetta mál leggjast upp tel ég ekki endilega áríðandi að það klárist í núverandi mynd. Það má vera að samkomulag náist um að breyta því þannig að það geti orðið viðunandi.