141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

opinber stuðningur við vísindarannsóknir.

198. mál
[14:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Fyrst að því síðasta sem hún nefndi. Þess sér ekki stað í frumvarpinu enda mátum við það ekki að það ætti heima í þessu frumvarpi. Hins vegar vinnum við núna áfram á vettvangi Vísinda- og tækniráðs að því. Heilmikil vinna hefur verið unnin við greiningu á hlut kynjanna í rannsóknum og rannsóknarstyrkjum og það höfum við þingmaður rætt áður hvað varðar til dæmis bágan hlut kvenna í stöðum verkefnastjóra. Þar er sem sagt verið að vinna að því að leggja fram áætlun um það svið, en hún er að minnsta kosti ekki komin á það stig að hún eigi heima í lagafrumvarpi. Það getur vel verið að svo verði síðar. Ég held að það kalli kannski á aðra umræðu.

Hvað varðar markáætlanir þá hafa þær vissulega verið líka á sviði félags- og hugvísinda. Ég nefni nýlega markáætlun um jafnréttisrannsóknir þar sem kallaðir voru til hugvísindamenn og félagsvísindamenn. Og ef ég man rétt hafa verið öndvegisstyrkir á sviði miðaldafræða. Það gæti hafa verið öndvegisstyrkur eða eitthvert öndvegissetur. Ég held því að mikil færi séu á því að gera þverfræðilegar rannsóknir á sviði félagsvísinda og hugvísinda eins og í lífvísindum eða öðrum greinum, svo ég nefni það, og jafnréttismálin eru þar bara gott dæmi.

Ég nefni síðan útfærsluna. Ein leið sem hefur verið farin í þessu og mörg virt tímarit gera núna kröfu um er að greitt sé gjald fyrir opinn aðgang. Þá hefur verið farin sú leið af hálfu Rannís að styrkja viðkomandi vísindamenn um það gjald. Krafan er sett um að greinin sé birt í opnum aðgangi en ef tímaritið setur gjald á það er það greitt af styrki Rannís, svo dæmi sé tekið.

Að þessu hefur verið hugað og í raun og veru hefur þessi krafa verið uppi af hálfu Rannís nú um nokkurt skeið en hún hefur ekki verið lögbundin nema þetta frumvarp verði að lögum. Það hefur því þegar verið unnið talsvert mikið í útfærslu á þeim efnum. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta áhugaverðar hugmyndir sem hv. þingmaður nefnir því að þetta er að breytast mjög hratt hjá virtustu fræðitímaritunum. Þau eru flest að færa sig (Forseti hringir.) yfir í einhverjar slíkar leiðir eins og ég nefni hér, en það má hugsa sér einhverja aðlögun að því.