141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

opinber stuðningur við vísindarannsóknir.

198. mál
[14:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Formaður Vísinda- og tækniráðs er forsætisráðherra Íslands. Það er sá aðili sem á að hafa forustu um að leiða vinnu af þessu tagi til að hafa heildarhagsmuni vísinda- og rannsóknasamfélagsins, og þar með talið samfélagsins alls, í huga. Mér finnst því vont að heyra, um leið og ég fagna áherslum ráðherra, að forsætisráðherra skuli þá ekki beita sér enn frekar fyrir uppstokkun í þessu máli. Vel má vera að það sé pólitískt viðkvæmt á milli stjórnarflokkanna en ef við hugsum eingöngu um heildarhagsmuni vísinda og rannsókna í landinu, á hvaða sviði sem er, hvort sem það er á sviði grunnrannsókna eða hagnýtra rannsókna — og það eru líka hagnýtar rannsóknir innan rannsóknasjóðsins, þó að meginhlutinn sé grunnrannsóknir — þá tel ég miklu máli skipta að stokkað sé upp í kerfinu. Ég tel hagsmunaaðila úti samfélaginu enn hafa of sterk ítök í því hvernig úthlutanir eru, sem getur verið jákvætt en er líka neikvætt. Þær eru ekki gerðar á þeim faglegu forsendum, alþjóðlega viðurkenndum forsendum, sem við gerum meðal annars kröfu um gagnvart þeim sjóðum sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Um leið og ég fagna afstöðu ráðherra í þessu máli hvet ég hana til dáða við að ýta við forsætisráðherra þannig að hún taki keflið og stokki upp í þessu þó að það sé erfitt og viðkvæmt á kosningaári. Það skiptir máli fyrir okkur til lengri tíma litið að úthlutanir úr vísindasjóðum séu trúverðugar og byggðar á samkeppnisgrundvelli þannig að við vitum að þær fari til bestu rannsókna, bestu umsókna, en ekki í einhver gæluverkefni tiltekinna manna.