141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

mótun reglna um verkferla og hæfnismat við opinberar embættisveitingar.

119. mál
[15:34]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það fór ekki svo að ég hefði ekki meira um málið að segja. Vegna orða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um hæfi ráðherranna vil ég ekki að menn skilji það þannig að ég sé þeirrar skoðunar að það geti alls ekki átt við að nauðsynlegt sé að ráðherra víki sæti. Þó er það þannig, þegar við hugsum um hvaða tilfinningu umsækjendurnir hafa, að það er gjarnan flokksbróðir ráðherrans sem tekur sæti, eða eðli málsins samkvæmt í samsteypustjórn ráðherra úr öðrum flokki en þeir starfa þó saman í ríkisstjórn og hafa þar með náin tengsl. Ég er ekki viss um að þeir sem sækja um störf upplifi það sem sérstaklega mikla eða gagngera breytingu. En það er rétt að staðan getur verið sú að nauðsynlegt sé fyrir ráðherra að víkja sæti formsins vegna.

Það sem ég á við er: Þetta getur líka myndað skjól fyrir ráðherra til að koma fram vilja sínum án þess að þurfa að bera á því pólitíska ábyrgð. Ég tel rétt að hafa þetta í huga af því það er ákveðin hætta á misnotkun á þessari reglu.

Hvað varðar ráðningar hæstv. ráðherra almennt er eðlilegt, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi, að það séu pólitískar ráðningar inn í ráðuneytin. Ég hef velt því fyrir mér hvort við þurfum ekki í það minnsta að íhuga hversu marga pólitíska starfsmenn ráðherra getur sett inn í ráðuneytin. Þegar um er að ræða stór og mikil ráðuneyti þar sem ráðherrann á allt undir samstarfi sínu við ráðuneytisstjórann má velta fyrir sér hvort það sé eðlilegt — og það snýr þá að starfsmannalögum væntanlega og öðru slíku — að ráðherra sem kemur inn í ráðuneytið eigi til dæmis að geta sett inn pólitískan ráðuneytisstjóra. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hér og nú, en ég held að það sé sjálfsagt að velta þessu fyrir okkur, sérstaklega eftir að ráðuneytunum var breytt og þau gerð stærri og umfangsmeiri. Það getur verið mjög mikið vandamál fyrir ráðherra sem kemur nýr inn í ráðuneyti ef ráðuneytisstjórinn hefur kannski verið skipaður af ráðherra í ríkisstjórn sem er farin frá og var jafnvel andstæð þeirri ríkisstjórn sem tekur við. Þá getur samstarf nýja ráðherrans og ráðuneytisstjórans orðið mörg erfitt og þar með komið niður á störfum ráðuneytisins. Eftir því sem ráðuneytin eru stærri og ráðuneytisstjórarnir þar með voldugri verður þessi spurning meira knýjandi.

Með öðrum orðum, virðulegi forseti, ég er þeirrar skoðunar að ráðherrar eigi að hafa nokkuð ríkt svigrúm til ráðninga, en þeir verði að bera ábyrgð á þeim. Það eru fjölmiðlarnir og Alþingi sem síðan eiga að veita mjög stíft og hart aðhald. Ég óttast nefnilega að þegar við búum til ferlana og kerfin verði þau stundum skálkaskjól fyrir alls konar spillingu. Það er hætta á því að þau gefi falska öryggiskennd. Ráðherra skipar sem dæmi valnefndina og setur þangað þá aðila sem hann er búinn að eiga orðastað við og sú valnefnd þekkir og veit vilja ráðherrans og kemst að þeirri niðurstöðu sem ráðherrann vill að verði komist að. Ráðherrann getur síðan borið fyrir sig að ráðningin hafi bara verið að vilja valnefndarinnar og hann eða hún sem einstaklingur eða í krafti embættis síns hafi þar hvergi nærri komið. Þar með verði búin til fölsk öryggiskennd og það verður erfiðara fyrir fjölmiðlana að veita aðhald sem og Alþingi.

Þess vegna skiptir máli í vinnu nefndarinnar, verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt, að menn glepjist ekki til þess að halda að hægt sé að eyða öllum þessum vanda með nefndum eða uppsettum kerfum, ef svo má segja. Ég held að það verði ekki þannig. Aðhaldið er hjá þinginu og hjá fjölmiðlunum, síðan hjá kjósendunum. Það er hið raunverulega og besta aðhaldið.

En að sjálfsögðu þurfum við að hafa um þetta reglur og ég er mjög ánægður að heyra þá skoðun sem kom frá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að kallað sé eftir hinum matskenndu þáttum, m.a. í auglýsingu. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að þar komi skýrt fram eftir hverju er verið að leita. Eftir því sem það kemur skýrar fram í auglýsingum því meiri möguleikar eru á að vinna málin þannig að menn geti rakið sig til baka, ef svo má segja, farið í gegnum öll sjónarmið og röksemdafærsluna, komi til þess að ráðning sé kærð. (Forseti hringir.)