141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

virðisaukaskattur.

60. mál
[16:11]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil með fáeinum orðum þakka undirtektirnar við þetta mál, bæði frá hv. þm. Kristjáni L. Möller og sömuleiðis frá hv. þm. Illuga Gunnarssyni. Mér finnst þeir báðir hafa varpað nýju ljósi á málið og sett í nauðsynlegt samhengi. Sögurnar sem hv. þm. Kristján L. Möller sagði okkur frá framtaksmönnum á Vopnafirði og Neskaupstað eru líka lýsandi dæmi. Ég veit í þessu sambandi að það eru Íslendingar að smíða þessar varmadælur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef svo vel tekst til að þetta frumvarp verður samþykkt verður það til þess að auka áhuga manna á að kaupa þennan búnað og líka til þess að ýmsir sæju sér hag í því að smíða hann. Þá yrðu til störf og það mundi auðvitað efla okkar atvinnulíf, og þótt það væri ekki í stórum stíl skiptir það miklu máli.

Stóra málið er, eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson kom inn á, að við greiðum atkvæði um málið og komumst að niðurstöðu um það. Það er auðvitað ekki gott að vera ábyrgur fyrir því sem fyrsti flutningsmaður málsins að viðskipti með varmadælur kunni að hafa minnkað vegna þess að menn hafa verið að bíða eftir niðurstöðu málsins. Ég vil nú helst ekki þurfa að bera ábyrgð á því.

Þetta mál snýst númer eitt um að reyna að lækka húshitunarkostnað sem er sligandi. Ég nefndi sem dæmi tölur um að frá árinu 2000 hefði húshitunarkostnaður í dreifbýli á svæði Rariks hækkað um 43%, en lækkað á sama tíma á höfuðborgarsvæðinu um 28%.

Það er rétt sem hv. þm. Illugi Gunnarsson sagði áðan að dæmi eru um að fólk sem býr á þessum svokölluðu köldu svæðum sé í hreinustu vandræðum við að láta enda ná saman vegna þessa mikla kostnaðarauka. Nógu erfitt er þetta hjá mjög mörgum fjölskyldum þótt þessi ósköp bætist ekki við líka.

Hér er bara verið að stíga eitt skref til að reyna að stuðla að lægri húshitunarkostnaði. En eftir sem áður stendur verkefnið sem við þurfum að takast á við að öðru leyti um lækkun húshitunarkostnaðar. Eins og hv. þm. Kristján L. Möller nefndi kynnti atvinnuveganefnd sér mjög vel tillögur stjórnskipaðrar nefndar í þessum efnum sem leggur annars vegar til að dreifingarkostnaður á rafmagni verði greiddur niður að fullu og hins vegar að aflað verði fjár til að standa undir þessu með því að leggja 10 aura á hverja selda kílóvattstund.

Virðulegi forseti. Ég vil með þessum fáu orðum þakka kærlega fyrir umræðurnar og treysti því að þær verði til þess að fá þetta mál samþykkt.