141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[16:34]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki þannig að verið sé að fórna frelsi og rétti til friðhelgi og einkalífs með þessum heimildum. Alls ekki. Heldur því einhver fram að búið sé að fórna frelsi og friðhelgi einkalífs annars staðar á Norðurlöndum? Að sjálfsögðu ekki. (Gripið fram í.) Það er ekki verið að biðja um heimildir til að fylgjast með hverjum sem er hvenær sem er. Hvaða bull er þetta? Það er verið að biðja um heimildir í ákveðnum tilgangi en hann er ekki eins þröngur og hann er í dag. Það verður eftirlit á beitingu heimildanna. Halda menn að lögreglan sé að fara að fylgjast með einhverjum að óþörfu, undirmannað lið sem (Gripið fram í.) er að berjast hér við glæpamenn og er að reyna að rannsaka kynferðisbrotamál o.s.frv. með allt of litlum mannafla? (Gripið fram í.) Þetta er algjörlega fráleit umræða að mínu mati.

Auðvitað verður þessum heimildum komið þannig fyrir að eftirlit sé með þeim þannig að þetta verði í lagi. Þannig er það gert annars staðar á Norðurlöndunum.

Lögreglan þar telur þetta mjög brýnt. Enginn talar um það þar, svo ég viti til, að taka þessar heimildir af. Ef eitthvað er þá er meiri umræða um að fylgjast þurfi með uppgangi glæpahópa og þeirra sem mögulega fara að stunda hryðjuverk. Það er ekki þannig að þessar heimildir snúi einungis að glæpagengjum. Ég held jafnvel að það sé miklu mikilvægara að rannsaka einstaklinga sem eru líklegir til að fremja hér stórfellda glæpi á eigin vegum, (Gripið fram í.) þeir sem eru einyrkjar. Ég vil nefna Brevik í Noregi sem dæmi, sem því miður tókst ekki að stoppa þótt lögreglan hafi haft þessar heimildir og margt fór úrskeiðis þar, eins og menn geta lesið í rannsóknarskýrslum þaðan. En tekist hefur að stoppa (Forseti hringir.) önnur mál, þar vil ég nefna Jyllandsposten og fleiri mál. (BirgJ: Hvaða fleiri mál?) (Gripið fram í.)