141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[16:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir þetta mál og framsögu hennar sem mér finnst hafa varpað enn skýrara ljósi á mjög eðlilega tillögu sem ég styð heilshugar og mun gera það í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég vil hins vegar segja það skoðun mína að þó að vel sé búið að fara yfir málið eigum við aftur að leita umsagna, eins og mér finnst að eigi að gera um flest mál, en þetta er engu að síður mál sem hægt er að klára auðveldlega fyrir jól.

Ég vil spyrja hv. þingmann varðandi eftirlitið. Ég held að það sé lykilatriði að skýrt eftirlit sé. Það er ekki óeðlilegt að upp komi efasemdir um það að verið sé að brjóta á friðhelgi fólks. Ég vil hins vegar snúa því við. Ég vil segja að með þessum og hinum leiðunum sem liggja hér fyrir erum við einmitt að verja friðhelgi fólks, við erum að verja frelsið umfram það að gera ekkert í málinu eins og sumir þingmenn vilja gera.

Ég tel þetta vera skynsamlega leið. Við eigum að leita og líta til þeirra fordæma sem við sjáum á Norðurlöndunum. Ég tel að þegar menn komu í veg fyrir sprengjuárásir vegna Jyllandsposten og teikninganna þar hafi menn verið að verja frelsið. Það sama er með ýmsar neðanjarðarsprengjur, hvort sem það er í Bretlandi eða annars staðar, þá voru menn að verja frelsið.

Það væri barnaskapur ef við Íslendingar ætluðum ekki að undirbyggja löggjöf okkar þannig að við gætum á hvaða tíma sem er tekið á því þegar öfgamenn, hvar sem þeir eru á skalanum, ætluðu sér að fara að grípa til einhverra voðaverka hér á landi eins og við horfðum svo sorglega upp á í Noregi.

Ég vil því spyrja um það sem skiptir máli til að menn sjái líka samhengið: Hvernig sér hv. þingmaður eftirlitið fyrir sér, og tilmælin? Eigum við frekar að leita til hæstv. innanríkisráðherra? Ég tel borðleggjandi að við eigum að fara í það að leita umsagna og fá gesti sem fyrst til að við getum afgreitt málið með svipuðum hætti og við gerðum á síðasta þingi.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni, það er eitt og annað sem (Forseti hringir.) hefur gerst síðan við afgreiddum málið en frekar því til stuðnings en hitt.