141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[16:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Svona tilmæli og reglur á Norðurlöndunum hafa komið í veg fyrir glæpi og ég fullyrði mannslíf, en því miður ekki alltaf. Það er ekki alltaf þannig að löggjafanum sjáist fyrir með allt í kerfinu sem slíku eða viðbrögðum lögreglu sem rannsakendum eða hvað það er.

Það sem við erum að gera hér og felst í þessu er að reyna að koma til móts við þær hættur og horfast í augu við það að við munum standa frammi fyrir hættu hér sem annars staðar þó það kunni að vera með ólíku móti.

Það sem ég vil hins vegar aðeins tala um varðandi eftirlitið er — ég held að það sé lykillinn að því líka — að það verði trúverðugt, að fólk fái traust á þeirri leið. Ég er að því leytinu til ekki sammála hv. þingmanni um að það verði eingöngu deild innan dómstólanna, því að við sjáum að dómstólarnir samþykkja meira og minna allt sem kemur frá lögreglunni, sem ég held að sé réttmætt. Ég held að þeir byggi röksemdafærslu sína á þeim gögnum sem liggja fyrir, þeir geti ekki byggt á öðru og meta það þannig. Ég treysti þeim algjörlega til þess að meta það á þann hátt sem þeir hafa gert fram til þessa.

Engu að síður held ég að mikilvægt sé að þingið hafi eftirlitsheimildir líka, þá á báða vegu, þannig að við sjáum bæði deild innan dómstólanna sem og að þingið hafi þessar heimildir til að fara mjög ítarlega í það að veita lögreglunni þetta eftirlit og þá um leið aðhald sem er nauðsynlegt fyrir okkur sem lýðræðissamfélag.

Ég undirstrika það að ég sé þá leið sem verið er að boða hér, að líta til Norðurlandanna, frekar sem lið í því að styrkja samfélagið, styrkja friðhelgina og styrkja frelsið til lengri tíma fyrir almenna borgara landsins.