141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[16:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og málefnalega ræðu. Ég held að það skipti miklu máli að við ræðum þessi mál af hógværð og yfirvegun.

Erum við ekki sammála um að frelsið sé yndislegt og að það sé hlutverk löggjafans eða ríkisvaldsins að vernda það? Frelsi er ekki bara frelsi til athafna, það snýr að öryggi okkar. Ríkisvaldið var stofnað til að vernda fólk þannig að þeir sem voru stærri og sterkari gætu ekki meitt fólk og drepið. Það er eitthvað sem við megum aldrei gleyma. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, og jafnóhugnanlegt og það er, hefur fólk í þeim löndum sem við berum okkur saman við gengið þannig á frelsi meðborgara sinna að það hefur drepið það. Það eru bara staðreyndir sem liggja fyrir.

Ég er sammála hv. þingmanni um það að mjög mikilvægt er að koma í veg fyrir misnotkun. Ég þekki það sjálfur af persónulegri reynslu að embættismenn hafa misnotað aðstöðu sína og gengið á frelsi mitt. Þó að það sé kannski „tragíkómískt“ mál sýnir það samt sem áður að ýmislegt er hægt að gera ef viljinn er fyrir hendi.

Við getum ekki gleymt því að þeir aðilar sem eiga að vernda okkur og gera það hafa líka rétt. Við þekkjum um það dæmi, eins og hér er nefnt, að í janúar 2009 voru lögreglumenn beittir ofbeldi, það munaði litlu að illa færi, við skulum ekki tala það niður. Við þekkjum það líka úr sögunni. Við höfum ekki haft hlutina eins og aðrar Norðurlandaþjóðir og höfum ekki getað (Forseti hringir.) gripið inn í eins og þær hafa getað gert. Við þekkjum það nú sem fyrr að það hefur valdið gríðarlegum líkamlegum skaða lögreglumanna. (Forseti hringir.) Mér finnst menn svolítið gleyma því í þessari umræðu.