141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[17:11]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu. Ég verð að játa að ég ber ekki sama ugg í brjósti og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sem talaði hér á undan. Ég er fylgjandi því að lögreglunni verði veittar þessar forvirku rannsóknarheimildir vegna þess að ég tel að stundum verði að fórna sérhagsmunum fyrir almannahagsmuni og ég tel að þetta sé í þágu allra íbúa landsins.

Ég vil hins vegar taka undir með hv. flutningsmanni, Siv Friðleifsdóttur, um virkt eftirlit með notkun heimildarinnar og held að það muni skipta miklu máli. Ég ber fullt traust til lögreglunnar að fara með slíka heimild og fylgja varúðarsjónarmiðum um hvernig henni eigi að beita. Eftirlit með notkun slíkrar heimildar hlýtur að felast í þeim tækjum sem við höfum til að þetta verði ekki á nokkurn hátt misnotað.

Ef svo fer að frelsi einhverra skerðist vegna þess að lögreglan telur að almannahagsmunir ráði för — segjum að í því tilviki sé það einfaldlega ég sjálf — þá held ég að ef hægt er að tala um að frelsi mitt sé skert eða friðhelgi, ef talið er að ég ógni samfélaginu, þá eigi lögreglan að hafa til þess forvirkar heimildir til að fylgjast með ef út í það er farið. Ég ber ekki þann ótta í brjósti að lögreglan á Íslandi muni misnota þessi tæki. Þar greinir ef til vill á milli sjónarmiða.

Virðulegur forseti, ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég mun styðja þetta frumvarp. Ég var stuðningsmaður þess í allsherjar- og menntamálanefnd og var á því nefndaráliti sem úr nefndinni fór og ég mun hér eftir sem hingað til styðja þá þingsályktunartillögu sem nú er til umræðu.