141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

vopn, sprengiefni og skoteldar.

183. mál
[17:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessar ágætu ábendingar. Ég held varðandi áburðinn, bændurna, hálfa tonnið og túlkun þeirra laga muni það ekki reynast erfitt, en ég heyri að við hv. þingmaður erum sammála um markmiðið.

Varðandi söfnin er, eins og fram kom hjá hv. þingmanni, heimilt að veita undanþágu frá slíku.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Lögreglustjóri getur þó heimilað einstaklingi eða safni að eignast fleiri skotvopn og skotfæri fyrir þau, enda sé um að ræða vopn sem hafa ótvírætt söfnunargildi, svo sem vegna tengsla við sögu landsins. “

Ekki skilyrðislaust að það þurfi að vera tengsl þarna á milli en „svo sem“ við sögu landsins.

Ég tek undir með hv. þingmanni, það er eðlilegt að nefndin skoði þetta. Markmið okkar, mitt og hv. þingmanns, eru hin sömu. Ef hægt er að tryggja þetta með öðru og skýrara orðalagi finnst mér sjálfsagt að styðja slíkt.