141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis.

55. mál
[18:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur reyndar verið þannig að flokkarnir hafa oft og tíðum náð samkomulagi fyrir kosningar um takmarkanir á auglýsingakostnaði, sérstaklega í ljósvakamiðlum. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, þær eru mjög dýrar. Þess vegna er ágætt sem Ríkisútvarpið hefur gert að bjóða flokkunum ákveðinn tíma til ráðstöfunar sem flokkarnir geta nýtt að sinni vild og það má auðvitað skoða að gera meira af slíku. Það er meðal annars hlutverk Ríkisútvarpsins sem við rekum fyrir almannafé að tryggja að lýðræðið sé virkt og hluti af því er að tryggja að öll sjónarmið, líka sjónarmið nýrra framboða og minni flokka fái að heyrast og fái eðlilegan aðgang að kjósendum.

Því miður sé ég enga lausn á því hvernig eigi að draga úr kostnaði við stjórnmálaþátttöku í nútímaríkjum. Þetta er ekki bara vandamál hjá okkur Íslendingum, þetta er alþekkt í öllum lýðræðisríkjum. Vandinn er að það að koma skilaboðum til fólks er bæði flókið, erfitt og kostnaðarsamt. Og eftir því sem kjósendur eru fleiri því dýrara er það.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður bendir á. Af því að það er svo erfitt að koma skilaboðunum áleiðis er reynt að einfalda þau og stundum um of þannig að umræðan bíður stóran skaða af. Því miður á ég engin góð svör við þessu önnur en þau að ég held að í okkar fámenna samfélagi sé það þó þannig að við höfum betri tækifæri til að eiga innihaldsríkar umræður um stjórnmál, bæði í fjölmiðlum, greinaskrifum og svo hér á Alþingi en kannski er mögulegt í milljóna, tugmilljóna, jafnvel hundrað milljóna manna samfélögum. Við eigum að nýta okkur það vegna þess að það er nefnilega ekki alltaf galli að vera fámenn þjóð. Það getur verið stór kostur. Það var einmitt í tiltölulega fámennu borgríki á Grikklandi þar sem vagga lýðræðisins var.