141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

gagnger endurskoðun á skipulagi og forsendum hvalveiða.

83. mál
[18:49]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Svarið við síðari spurningunni er það að ég veit það ekki. Ég hef ekki séð vísindalegar niðurstöður sem ég get tekið mark á miðað við núverandi forsendur og get ekki svarað hv. þingmanni um þetta mál vegna þess að ég vil ekki vera með sleggjudóma, í hvoruga áttina.

Við fyrri spurningunni er það að segja að svo er ekki. Þetta mál er ekki flutt í tengslum við Evrópusambandsumsóknina eða meiningar innan Evrópusambandsins um hvalveiðar Íslendinga nema að takmörkuðu leyti, að því leyti sem þær felast í þeim forsendum sem við viljum að lagðar séu til grundvallar, sem eru efnahagslegir hagsmunir, dýraverndarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar. Ég held að þeir sem þekkja sögu hvalamálsins, hvort sem við tökum síðustu missiri eða frá miðjum níunda áratugnum eða förum aftur til síðustu aldamóta, sjái að það er full þörf á því að við setjum kraft í að taka skipulag á forsendum hvalveiða til gagngerrar endurskoðunar út frá öllum þeim sjónarmiðum sem þar koma til greina. Það er óþarfi að andæfa því með því að koma auga á djöfulinn í hverju horni eins og títt er hér á þinginu þegar minnst er á Evrópusambandið, bandalag helstu nágrannaþjóða okkar, viðskiptaþjóða og vinaþjóða.