141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

hernaður NATO í Líbíu.

[13:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég var ekki að biðja hæstv. ráðherra að leggja mat á afstöðu annarra til þessa máls. Ég var að spyrja hæstv. ráðherra út í afstöðu hans. Ég bið hann þá aftur að greina frá afstöðu sinni til ástandsins í Sýrlandi. Eins og hæstv. ráðherra lýsti hefur ástandið þar farið versnandi dag frá degi. Hæstv. ráðherra nefndi einnig að nú væri farið að beita klasasprengjum gegn borgurum þess lands. Því tel ég eðlilegt að hæstv. ráðherra setji þetta í samhengi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um Líbíu og svari því hvort hún muni beita sér fyrir því innan NATO hvað sem líður samstöðu í Sameinuðu þjóðunum. Hún var ekki til staðar hvað Líbíu varðaði. Mun ríkisstjórnin til dæmis beita sér fyrir flugbanni yfir Sýrlandi á sama hátt og menn lögðu upp með í Líbíu? Eða mun ríkisstjórnin sitja hjá og sjá til hvað NATO gerir í málinu? Ef það verður afstaða meiri hluta NATO að grípa þarna til aðgerða, hefur þá ríkisstjórnin ekki gert það upp við sig hvernig hún muni bregðast við?