141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Oracle-kerfið.

[13:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en þau koma mér þó örlítið á óvart vegna þess að umræður um þetta kerfi og þann aukna kostnað sem af því hafði hlotist höfðu vissulega ratað inn í þingnefndir og að minnsta kosti inn í þingskjöl. Svo snemma sem í desember 2009 gátu nefndarmenn Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd um þetta og vöktu sérstaka athygli fjármálaráðuneytisins á þessu vandamáli. Eins hefur komið fram í viðtölum við núverandi hv. formann fjárlaganefndar, Björn Val Gíslason, að honum hafi verið kunnugt um þessi vandamál frá 2009. Þess vegna kemur mér nokkuð á óvart að fjármálaráðherra hafi ekki verið upplýstur um það þá strax, árið 2009, að þarna væri um svona mikil vandamál að ræða.

Ég ætla ekki að rengja hæstv. fjármálaráðherra en vek þó athygli á því að þessu má fletta upp í þingskjölum að minnsta kosti aftur til ársins 2009 (Forseti hringir.) þar sem sérstök athygli var vakin á þessu tilteknu vandamáli.